Fótbolti

Andi með tvö í frábærum sigri en Rúmenar fóru áfram

Sindri Sverrisson skrifar
Andi Hoti leikur með Aftureldingu í sumar. Hann skoraði tvö mörk í Króatíu í dag.
Andi Hoti leikur með Aftureldingu í sumar. Hann skoraði tvö mörk í Króatíu í dag. Afturelding

Ísland vann 3-0 sigur gegn Rúmeníu í Króatíu í dag í síðasta leik sínum í undankeppni EM U19-landsliða karla í fótbolta. Sigurinn dugði þó ekki til að komast áfram á lokamótið.

Varnarmaðurinn Andi Hoti, sem er uppalinn hjá Leikni R. en gekk nýverið til liðs við Aftureldingu, skoraði tvö fyrstu mörk Íslands í dag. Það fyrra kom á 15. mínútu en það seinna þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. 

Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, innsiglaði svo sigurinn á 73. mínútu. Hann hafði fengið tækifæri til að skora rétt áður en Andi kom Íslandi yfir en vítaspyrna Ísaks Andra var þá varin.

Íslenska liðið var manni færra um tíma en Sveinn Gísli Þorkelsson fékk að líta rauða spjaldið á 42. mínútu. Aftur varð jafnt í liðum snemma í seinni hálfleik þegar Rares Ilie fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Þrátt fyrir tapið enduðu Rúmenar engu að síður efstir í riðlinum því á sama tíma tapaði Króatía 1-0 fyrir Georgíu. Það verða því Rúmenar sem leika á lokamótinu í sumar. Ísland endaði í 2. sæti með 4 stig, líkt og Georgía sem var með verri markatölu. Króatía endaði neðst með 3 stig eftir að hafa unnið Ísland 2-1 í fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×