Íslenski boltinn

Fram fær fljótan Dana í fremstu víglínu

Sindri Sverrisson skrifar
Jannik Pohl er orðinn leikmaður Fram.
Jannik Pohl er orðinn leikmaður Fram. vísir/sigurjón

Framarar hafa fengið sprettharðan, danskan framherja fyrir komandi átök í Bestu deildinni í fótbolta þar sem Fram kemur inn sem nýliði eftir að hafa síðast leikið í efstu deild árið 2014.

Leikmaðurinn heitir Jannik Pohl og er 25 ára gamall, fyrrverandi leikmaður yngri landsliða Danmerkur. Hann var kynntur til leiks í Safamýri í hádeginu.

Pohl kemur til Fram frá Horsens í Danmörku en samningur hans við félagið rann út í vetur. Samningur Pohl við Fram gildir út þetta ár.

Pohl vakti ungur athygli og hóf að spila með AaB í dönsku úrvalsdeildinni. Eftir að hafa skorað þar átta mörk tímabilið 2017-18 fór hann til hollenska félagsins Groningen en þar settu meiðsli strik í reikninginn.

Jannik Pohl í leik gegn Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.Getty

Pohl var lánaður frá Groningen til Horsens og samkvæmt Horsens Folkeblad hefur hann glímt talsvert við meiðsli á tíma sínum hjá félaginu. Blaðið segir alveg ljóst að væri hann heill heilsu og í góðu formi myndi hann án efa hafa getað gert gæfumuninn fyrir Horsens í dönsku 1. deildinni en félagið hafi ákveðið að fara aðra leið.

Það styttist óðum í fyrsta leik Fram í Bestu deildinni en nýliðarnir taka á móti KR í Úlfarsárdalnum 20. apríl.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×