Körfubolti

Frið­rik Ingi: Ég var ekki á­nægður með dóm­gæsluna í kvöld

Smári Jökull Jónsson skrifar
Friðrik Ingi ræðir hér við Eggert Þór Aðalsteinsson dómara sem dæmdi þó ekki í Grindavík í kvöld. Friðrik var óánægður með dómgæsluna í leiknum í kvöld.
Friðrik Ingi ræðir hér við Eggert Þór Aðalsteinsson dómara sem dæmdi þó ekki í Grindavík í kvöld. Friðrik var óánægður með dómgæsluna í leiknum í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

„Þetta var bara villa. Hann er með lítinn skurð á enninu sem blæðir úr þannig að það segir allt sem segja þarf,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari ÍR sem vildi villu í síðustu sókn ÍR í tapleiknum gegn Grindavík í kvöld.

Atvikið sem Friðrik Ingi er að tala um gerist þegar fjórtán sekúndur eru eftir af leiknum. Jordan Semple var þá undir körfunni, náði skoti en hitti ekki. ÍR-ingar vildu villu en ekkert var dæmt og þess í stað fór Grindavík upp völlinn og EC Matthews tryggði þeim sigur með flautukörfu.

Friðrik Ingi ræddi við dómarana eftir leik en lítið var um svör að hans mati.

„Þeir gátu ekki svarað neinu, þeir töldu að ég væri of æstur. Ég kannski aðeins hækkaði röddina en var samt ekkert dónalegur. Ég ætla bara að segja það að ég var ekki ánægður með dómgæsluna í kvöld. Ég held að það sé í fyrsta skipti sem ég segi það í viðtali,“ sagði Friðrik Ingi við Vísi eftir leik í kvöld.

„Hins vegar eru atriði í mínu liði þar sem við hefðum getað gert betur til að klára leikinn og allt það. Ég hef alveg þann þroska og skilning á því að það þarf meira til. Það er 21-12 í vítum, menn geta bara skoðað þetta,“ bætti Friðrik Ingi við.

ÍR-ingar komust átján stigum yfir í öðrum leikhluta en Grindvíkingar skoruðu ellefu síðustu stig leikhlutans og náðu að minnka muninn verulega fyrir leikhlé.

„Við skoruðum líka í einhverjum kippum, svona er bara þessi leikur. Við komumst aftur yfir og ég átti alveg von á leiknum með þessum hætti. Vissulega, komnir átján stigum yfir, þá fórum við aðeins út úr okkar kennileiti og ég var ekki ánægður með það.“

„Ég óska Grindavík til hamingju, þeir fengu þessi tvö stig og þannig er það.“

Von ÍR-inga um sæti í úrslitakeppni er veik eftir tapið en þeir eru fjórum stigum á eftir KR og Breiðablik með tvo leiki eftir í deildinni.

„Ég held að Breiðablik sé í sterkustu stöðunni. Ég er svo sem ekkert að hugsa um þetta núna, ég er fyrst og fremst óánægður með að við höfum ekki náð að vinna þennan leik. Meiri partinn af leiknum var ég mjög ánægður með spilamennskuna. Nú er bara stutt hvíld því það er leikur aftur á sunnudag,“ sagði Friðrik Ingi að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×