Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 30-26| Valsmenn aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Valur komst aftur á sigurbraut eftir fjögurra marka sigur á Fram 30-26. Valsarar voru sterkari á lokasprettinum og sigldu fram úr sem skilaði stigunum tveimur.

Það var áþreifanlegt að bæði lið væru að mæta til leiks með svekkjandi tap á bakinu eftir síðustu umferð. Fyrstu mínúturnar voru þess eðlis en Valur átti fyrsta áhlaup leiksins þar sem heimamenn gerðu fjögur mörk í röð og þá var staðan 8-5.

Það tók Fram ekki langan tíma að minnka forskot Vals niður í eitt mark 8-7. Valsarar héldu í sitt eins marks forskot alveg þar til þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þá jafnaði Fram 14-14. Þorsteinn Gaut Hjálmarsson dró vagninn hjá Fram og skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik úr jafn mörgum skotum.

Valur reyndist sterkari á svellinu undir lok fyrri hálfleiks og gerði síðustu tvö mörkin. Valur var því tveimur mörkum yfir í hálfleik 16-14. Markaskorun leiksins dreifðist á þokkalega marga og alls skoruðu 15 leikmenn samanlagt í fyrri hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks gerði Valur þrjú mörk í röð og virtist ætla að kæfa leikinn en gestirnir gerðu vel í að halda sér inni í leiknum. 

Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók leikhlé fjórum mörkum undir 22-18 og þá gerðu gestirnir tvö mörk í röð. Fram náði að minnka forskot Vals minnst niður í eitt mark þegar tæplega sex mínútur voru eftir af leiknum.

Vilhelm Poulsen meiddist svo stuttu síðar og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fékk síðan rautt spjald í næstu vörn þegar hann fór hressilega í andlitið á Magnúsi Óla Magnússyni. Þá var enginn eftir í upprunalegu útilínu Fram þar sem Stefán Darri Þórsson hafði meiðst fyrr í leiknum.

Valur vann að lokum fjögurra marka sigur 30-26.

Af hverju vann Valur?

Þrátt fyrir að leikurinn var nokkuð jafn lengst af þá tókst Fram aldrei að jafna eða komast yfir eftir fyrstu tíu mínúturnar í leiknum. 

Á lokasprettinum hafði Fram misst Vilhelm Poulsen og Stefán Darra í meiðsli, Þorsteinn Gauti fékk síðan beint rautt spjald. Þá var róðurinn ansi þungur fyrir gestina. 

Hverjir stóðu upp úr?

Tjörvi Týr Gíslason skoraði fimm mörk úr jafn mörgum skotum. Tjörvi var einnig með ellefu löglegar stöðvanir.

Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, varði 14 skot og mátti telja nokkra bolta sem komu á ansi mikilvægu augnabliki í leiknum.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var markahæstur hjá Fram með 7 mörk.

Hvað gekk illa?

Fram voru oftar en ekki algjörir klaufar þegar leikurinn var í járnum hvort sem það var að klikka á dauðafæri, fá tveggja mínútna brottvísun eða tapa boltanum.

Hvað gerist næst?

Valur fer í Mosfellsbæinn og mætir Aftureldingu föstudaginn 1. apríl klukkan 19:30.

Laugardaginn eftir viku mætast Fram og FH í Safamýrinni klukkan 18:30.

Einar: Björgvin Páll reyndist okkur erfiður

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir leik Vísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur með tap gegn Val á útivelli.

„Valur nýtti færin sín töluvert betur en við í seinni hálfleik, það er einn þáttur. Vörnin hjá Val var betri en það er annar þáttur svo er Valur bara betri í handbolta,“ sagði Einar Jónsson eftir leik.

Einar var ánægður með liðið sitt sem spilaði á köflum afar vel.

„Mér fannst við spila vel á köflum og leikurinn var lengi í járnum. Okkur tókst að opna þá en Björgvin Páll reyndist okkur erfiður í markinu.“

Leikurinn var í járnum alveg þar til tæplega fjórar mínútur voru til leiksloka en þá hafði Fram misst Vilhelm Poulsen og Stefán Darra í meiðsli ásamt því fékk Þorsteinn Gauti rautt spjald.

„Útilínan var öll dottin út síðustu fimm mínúturnar og það gerði leikinn ekki auðveldari en þar tapaðist leikurinn samt sem áður ekki,“ sagði Einar Jónsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira