Innlent

„Það eru margir veikir, með hita, hósta og kvef“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar.
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar. Vísir/Sigurjón

Töluvert margir hafa leitað á heilsugæsluna undanfarnar vikur með inflúensu, að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá hafa börn greinst í miklum mæli og mikið álag er á Barnaspítala Hringsins.

„Það eru margir veikir, með hita, hósta og kvef, þessa dagana,“ segir Óskar. Hann vill ekki endilega meina að um inflúensufaraldur sé að ræða enda láti inflúensan á sér kræla árlega. Hún sé hins vegar aðeins seinna á ferðinni en almennt.

„Það er mjög mikil aðsókn hjá okkur núna, bæði vegna covid og flensunnar,“ segir hann. „Það er töluvert af börnum en það er eins og með covid, að þau eru ekki bólusett við inflúensunni, og margir verða töluvert veikir - fá kannski fjörutíu stiga hita.“

Flestir greinast með svokallaða inflúensu-a en einkenni hennar eru hiti, hósti, hálssærindi, þreyta og slappleiki. Þá er einnig um að ræða einkenni frá meltingarvegi. 

Óskar segir að bólusetningar hafi verið vel sóttar, pantaðir hafi verið inn 95 þúsund skammtar og að um 68 þúsund manns hafi skráð sig í bólusetningu. Nóg sé eftir af bóluefni enda hafi verið pantaðir fleiri skammtar nú en undanfarin ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er mjög mikið álag á Barnaspítala Hringsins vegna inflúensu. Eitt barn er inniliggjandi og viðbúið að fleiri muni þurfa að leggjast inn á næstu vikum. Bylgjan byrji vanalega hjá börnum og fari síðan yfir í fullorðna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×