Innlent

Skandall að mikil­væg tól sem hjálpa ís­lenskunni hafi verið á bak við lás og slá

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sveinbjörn hefur síðasta árið eða svo unnið að gerð orðabókarinnar. Þetta gerði hann allt í frítíma sínum og þiggur ekki krónu fyrir.
Sveinbjörn hefur síðasta árið eða svo unnið að gerð orðabókarinnar. Þetta gerði hann allt í frítíma sínum og þiggur ekki krónu fyrir. vísir/arnar

Ungur for­­ritari sem var orðinn lang­­þreyttur á að þurfa að greiða fyrir að­­gang að Snöru tók málin í sínar hendur stofnaði fría orða­­bók á netinu. Hann segir skan­­dal að stjórn­völd hafi ekki gert þetta fyrr.

Hver kannast ekki við að þurfa að fletta upp orði í ensk-ís­lenskri orða­bók, opna Snöru en lenda á vegg? Þeir dagar eru liðnir því ný­lega opnaði ný ensk-ís­lensk orða­bók á netinu, ensk.is, og hún er ó­keypis öllum.

Á bak við verk­efnið stendur ungur for­ritari.

„Ég var bara orðinn lang­þreyttur á því að það væri engin opin ensk-ís­lensk orða­bók á netinu og á­kvað hrein­lega bara að gera eitt­hvað í því sjálfur,“ segir Svein­björn Þórðarson.

Á annað hundrað orða á dag

Svein­björn rakst á orða­bók frá Geir T. Zoëga, fyrrum rektor við Mennta­skólann í Reykja­vík, frá árinu 1932.

Geir T. Zoëga var bæði rektor og enskukennari við Menntaskólann í Reykjavík snemma á síðustu öld. 

Höfundar­rétturinn á henni er ekki lengur í gildi og gat hann því skannað hana alla inn á netið og opnað hana.

„Ég hef náttúru­lega verið að bæta líka við þessa orða­bók. Það eru mörg orð sem vantar eins og gefur að skilja fyrst hún er frá 1932. Þú finnur ekki orðið „compu­ter“ (tölva) eða „helicopter“(þyrla) eða „nuc­lear wea­pon“ (kjarn­orku­vopn) eða hvað það nú er. Það var hrein­lega ekki búið að finna upp þessa hluti á þeim tíma,“ segir Svein­björn.

Og þetta gerði hann allt í sjálf­boða­vinnu í frí­tíma sínum síðasta árið eða svo.

„Ég svona hef bara verið að nota kvöldin mín í þetta, kannski reynt að fara í gegn um hundrað, tvö hundruð skil­greiningar á kvöldi,“ segir Svein­björn.

Ráðherra tekur málið til sín

Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra. Tungumálið er á hennar könnu. 

Að hans mati er það ó­trú­legt að ráða­menn hafi ekki ráðist í þetta verk­efni sjálfir.

„Menn tala um mál­verndar­stefnu og að vernda ís­lenskuna og svona en síðan bara... hvar eru gögnin? Hvar eru tólin sem við þurfum til þess að nota ís­lensku í al­þjóð­legu um­hverfi? Þau eru á bak við lás og slá. Og mér finnst það bara al­gjör skandall,“ segir Svein­björn.

Þetta tekur Lilja Al­freðs­dóttir menningar­ráð­herra hálfpartinn undir, sem er ansi hrifin af nýju net­orða­bókinni.

„Ég tek það bara til mín að við getum gert betur. Stjórn­völd eru þó búin að fjár­festa í mál­tækni á­ætlun fyrir rúma tvo milljarða sem þýðir að við ætlum að geta talað við tækin okkar á ís­lensku og erum auð­vitað að fjár­festa heil­mikið í þessu,“ segir Lilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×