Erlent

Selenskí segir samningamenn eygja möguleika á málamiðlun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí ávarpaði kanadíska þingið í gær.
Selenskí ávarpaði kanadíska þingið í gær. AP/The Canadian Press/Adrian Wyld

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir nú möguleika á málamiðlun eftir viðræður fulltrúa Úkraínu og Rússlands í gær. Ekkert lát er hins vegar á árásum Rússa og þá hafa fregnir borist af grimmilegum aftökum almennra borgara.

„Fundarhöld halda áfram og mér hefur verið tjáð að afstaða aðila í viðræðunum sé nú þegar orðin raunhæfari. En það mun taka tíma fyrir ákvarðanirnar að verða Úkraínu í hag,“ sagði Selenskí í mynskeiði sem birt var snemma í morgun.

Sagði hann friðarumleitanirnar krefjast þolinmæði.

Aðalsamningamaður Úkraínu, Mykhailo Podolyak, sagði að ákveðinn grundvallaratriði stæðu enn útaf en það væri rúm fyrir málamiðlun. Annar aðstoðarmaður Selenskí, Ihor Zhovkva, sagði að viðræðurnar væru uppbyggilegri nú en áður og að Rússar hefðu mildast í afstöðu sini að því leyti að þeir töluðu ekki lengur um uppgjöf Úkraínu sem skilyrði fyrir friði.

Viðræðurnar munu halda áfram í dag.

Rússar viðhafa nú stanslausar árásir á Kænugarð og víðar en úkraínska varnarmálaráðuneytið segir ástandið enn verst í Maríupól, þar sem íbúar hafa verið án vatns og rafmagns í langan tíma. Þá hefur verið greint frá því að Rússar haldi hundruðum í gíslingu á spítala í borginni.

Fregnir bárust einnig af því í gær að Rússar hefðu skotið að minnsta kosti tvo almenna borgara án nokkurar ástæðu; annar þeirra var með hendur á lofti og hinn stóð einn og grandalaus í nokkurri fjarlægð frá skriðdreka þegar skotið var á hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×