Erlent

Móðir og ó­fætt barn hennar létust í árás Rússa á fæðingar­spítalann

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þessi mynd hefur farið eins og eldur í sinu um netið. Konan á myndinni var flutt á annað sjúkrahús þar sem hún gekkst undir keisaraskurð. Hvorki hún né ófætt barn hennar lifðu af.
Þessi mynd hefur farið eins og eldur í sinu um netið. Konan á myndinni var flutt á annað sjúkrahús þar sem hún gekkst undir keisaraskurð. Hvorki hún né ófætt barn hennar lifðu af. AP Photo/Evgeniy Maloletka

Þunguð kona og ófætt barn hennar létust á sjúkrahúsi í Mariupol eftir árás Rússa á fæðingar- og barnasjúkrahús í borginni 9. mars síðastliðinn. Þau létust bæði eftir að læknar reyndu að bjarga barninu í keisaraskurði í kjölfar árásarinnar. 

Mynd af konunni, þar sem hún var borin á sjúkrabörum eftir árásina, fór eins og eldur í sinu um netheima. Á myndinni sést hún liggja náföl á sjúkrabörunum, á meðan karlmenn bera hana í sjúkrabíl, og strjúka blóðugan kviðinn. 

Úkraínskir hermenn ganga um rústir sjúkrahússins.AP Photo/Evgeniy Maloletka

Konan var flutt í flýti á annað sjúkrahús í borginni. Samkvæmt frétt AP reyndu læknar þar að halda bæði henni og barninu á lífi en þegar í ljós hafi komið að barnið væri hætt komið er haft eftir sjúkraliðum að konan hafi sagst vilja deyja. 

Þá er haft eftir Timur Marin skurðlækni að við skoðun hafi komið í ljós að mjaðmargrind konunnar hafi kramist í árásinni og hún farið úr mjaðmarlið. Læknar hafi ákveðið að framkvæma keisaraskurð en barnið hafi fæðst andvana. Konan var svo úrskurðuð látin eftir þrjátíu mínútna tilraunir til endurlífgunar. 

Mariana Vishegirskaya gengur út af fæðingarspítalanum í kjölfar árásarinnar.AP Photo/Evgeniy Maloletka

Fram kemur í frétt AP að heilbrigðisstarfsmennirnir hafi ekki náð nafni konunnar í allri ringulreiðinni. Eiginmaður hennar og faðir hafi þó mætt og tekið lík hennar til greftrunar svo ekki þurfti að jarðsetja hana í fjöldagröfum Mariupol. 

Rússar hafa verið sakaðir um stríðsglæpi vegna árásarinnar á sjúkrahúsið en rússnesk yfirvöld hafa haldið því fram að úkraínskir öfgahópar og vígahópurinn Azov hafi tekið yfir spítalann og notað hann sem höfuðstöðvar. Spítalinn hafi þar með ekki verið í notkun sem spítali þegar árásin á hann var gerð. Hvorki sjúklingar né heilbrigðisstarfsmenn hafi verið þar í árásinni. 

Mariana Vishegirskaya stendur fyrir utan sjúkrahúsið í kjölfar eldflaugaárásarinnar. Hún lifði árásina af og dóttir hennar kom í heiminn daginn eftir.AP Photo/Mstyslav Chernov

Rússnesk yfirvöld og rússnesk sendiráð, til dæmis í Lundúnum og Reykjavík, hafa sagt myndir frá árásinni falsaðar. Fréttamenn AP sem voru á staðnum fylgdust með árásinni, tóku myndir og myndbönd og ræddu við fórnarlömb árásarinnar. 

Rússneska sendiráðið í Bretlandi heldur því fram að myndir frá árásinni séu falsaðar. Twitter hefur eytt tístinu.Skjáskot

Áhrifavaldurinn Mariana Vishegirskaya var á fæðingarspítalanum þegar árásin var gerð og fæddi dóttur sína daginn eftir árásina. Eftir að myndir af henni af vettvangi voru birtar hafa rússnesk yfirvöld sagt hana hafa verið þar sem leikari og sönnun þess að myndir frá árásinni hafi verið tilbúningur. Þau hafa meðal annars sagt að hún hafi verið í hlutverki áðurnefndrar móður, sem lést í kjölfar árásarinnar. 

Rússneska sendiráðið hér á Íslandi endurtísti tísti frá rússneska fréttamiðlinum RT þar sem ýjað er að því að Vishegirskaya hafi þóst vera hún sjálf og móðirin sem lést í kjölfar árásarinnar.


Tengdar fréttir

Viðræður Úkraínumann og Rússa halda áfram og Bandaríkjamenn biðla til Kínverja

Fulltrúar Úkraínu og Rússlands munu ræða saman í dag í gegnum fjarfundabúnað, segir Mykhailo Podoliak, ráðgjafi Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu. Talsmenn beggja þjóða hafa sagt eitthvað orðið ágengt, jafnvel þótt engar vísbendingar séu uppi um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé reiðubúinn til að slá af kröfum sínum.

Missti annað barnið sitt í sprengju­á­rás Rússa

Pútín Rúss­lands­for­seti sýndi engan vilja til að binda enda á stríðið við Úkraínu að sögn franskra yfir­valda en Pútín átti síma­fund með Frakk­lands­for­seta og kanslara Þýska­lands í dag. Á­rásir Rússa á nokkrar úkraínskar borgir færðust mjög í aukana í morgun. Við vörum við mynd­efni sem fylgir myndbandinu í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×