Erlent

Á fjórða tug látnir og varna­mála­ráð­herrann sakar Rússa um hryðju­verk

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Tugir særðust við árásina. 
Tugir særðust við árásina.  Getty/Dan Kitwood

Skotið var á herstöð í Yavoriv, vestan við borgina Lviv í vesturhluta Úkraínu, í morgun en úkraínsk yfirvöld segja Rússa hafa verið að verki. Samkvæmt nýjustu tölum létust 35 og 134 særðust þegar tugum flugskeyta var skotið á herstöðina, sem er innan við 25 kílómetra frá landamærum Póllands.

Maksym Kozytskyy, landstjóri Lviv svæðins, segir að varnarkerfi herstöðvarinnar hafi stöðvað nokkur flugskeyti áður en þau lentu en þrátt fyrir það hafi fleiri en 30 flugskeyti lent á stöðinni, að því er kemur fram í frétt Reuters um málið.

Um er að ræða alþjóðlega herstöð sem bæði úkraínski herinn og NATO hafa notað en fyrir innrásina fóru flestar hernaðaræfingar Úkraínumanna með NATO fram við þessa herstöð.

 Erlendir hernaðarleiðbeinendur voru á svæðinu um tíma að sögn úkraínskra yfirvalda en ekki liggur fyrir hvort þeir hafi verið á staðnum þegar skotið var á stöðina. 

Oleksii Reznikov, varnamálaráðherra Úkraínu, greindi frá árásinni í morgun en þar fullyrti hann að um hryðjuverkaárás væri að ræða af hálfu Rússa. 

Rússnesk yfirvöld hafa ekki viljað staðfesta málið en margir eru nú uggandi yfir því hversu nálægt landamærum NATO ríkis árásin var.

Sprengingar voru víðar í Úkraínu í morgun og er rússneski herinn sagður ætla að umkringja úkraínskar hersveitir í austurhluta landsins. 

Vísir fylgist með nýjustu vendingum í vaktinni. 

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu tölum um fjölda látinna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×