Innlent

Forsætisráðherra óttast að stríðið dragist á langinn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem óttast að stríðið í Úkraínu eigi eftir að dragast á langinn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem óttast að stríðið í Úkraínu eigi eftir að dragast á langinn. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forsætisráðherra segir að að þjóðin eigi að halda áfram að fylgjast með fréttum af stríðinu í Úkraínu, þó það reyni mikið á og geti verið erfitt, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Hún óttast að stríðið eigi eftir að dragast á langinn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra er algjörlega miður sín eins og heimsbyggðin öll vegna stríðsins, sem geisar nú á milli Rússlands og Úkraínu.

„Þetta er auðvitað bara skelfilegt ástand, skelfilegt að fylgjast með fréttum á hverjum degi frá Úkraínu. Það er alveg ótrúlegt að sjá hvernig stríðsátökin setja bara allt á hvolf í tilveru venjulegs fólks. Og það er bara þar sem okkar hugur er og það er ótrúlega gott að finna þann velvilja sem við skynjum, bæði frá almenningi á Íslandi, sveitarfélögum og félagasamtökum í því að gera það sem við getum gert,“ segir Katrín.

En hvað segir Katrín, eigum við að hætta að fylgjast með fréttum af stríðinu í ljósi þess hvað það er hræðilegt, ekki síst börn og ungmenni eða hvað?

„Það er mikilvægt að fylgjast með fréttum en við verðum líka að tala saman um þetta og ekki síst fullorðnir og börn, tala saman þannig að við varðveitum okkar mennsku í gegnum svona atburði, það er bara það sem skiptir máli.“

Katrín segir mikilvægt að fylgjast áfram með fréttum af stríðinu en fullorðnir og börn þurfi að tala saman þannig að við varðveitum okkar mennsku í gegnum svona atburði.Aðsend

Hvernig getur þetta stríð endað?

„Það er náttúrulega algjört lífsspursmál um að einhver friðsamleg lausn finnist en því miður er menn ekki bjartsýnir á það.

Við skulum sjá hvað gerist en ég óttast að við eigum eftir að sjá þetta dragast á langinn,“ sagði forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×