Erlent

Lögðu hald á lúxussnekkju rússneska auðjöfursins sem var á Íslandi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Snekkjan er sú stærsta sinnar tegundar og kostar um 530 milljónir evra. 
Snekkjan er sú stærsta sinnar tegundar og kostar um 530 milljónir evra.  EPA

Lögreglan á Ítalíu hefur lagt hald á lúxussnekkjuna Sailing Yacht A sem er í eigu rússneska auðjöfursins Andrey Igorevich Melnichenko. Umrædd snekkja vakti töluverða athygli hér á landi en Melnichenko dvaldi á Íslandi í nokkurn tíma í fyrra með fjölskyldu sinni.

Evópusambandið setti Melnichenko á viðskiptaþvinganalista fyrir nokkrum dögum vegna innrásar Rússa í Úkraínu en ítalska lögreglan lagði hald á snekkjuna þar sem hún var við höfn Trieste, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Snekkjan er ein sú dýrasta í heiminum og jafnframt sú stærsta en hún er 143 metra löng og möstrin um hundrað metra há. Ekki er um neina smásmíði að ræða enda kostar snekkjan um 530 milljón evrur.

Íslendingar urðu varir við snekkjuna þar sem hún sást í kringum Ísland í fyrra. Snekkjan sást fyrst á Akureyri í apríl 2021, síðar í Grundafirði, næst við höfn í Reykjanesbæ og loks við Reykjavíkurhöfn áður en hún hélt til Gíbraltar.

Hér fyrir neðan má sjá snekkjuna þegar hún lagði af stað úr Reykjavíkurhöfn. 

Frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst fyrir rúmum tveimur vikum hafa Vesturlöndin beitt Rússa ýmsum refsiaðgerðum og hafa rússneskir auðjöfrar fengið að finna fyrir þeim.

Von er á frekari refsiaðgerðum frá Vesturlöndunum í dag en Evrópusambandið mun tilkynna fjórða refsiaðgerðarpakka sinn í dag.

Við fylgjumst með nýjustu vendingum í vaktinni hér á Vísi. 


Tengdar fréttir

Lúxussnekkjan kveður Ísland

Lúxussnekkjan Sailing Yacht A sem vakið hefur talsverða athygli víðs vegar um land síðustu vikur, hefur nú siglt á brott og er leiðinni haldið til Gíbraltar.

Lúxussnekkjur rússneskra auðjöfra í Reykjavíkurhöfn

Tvær lúxussnekkjur rússneskra auðjöfra eru nú í Reykjavíkurhöfn. Þar er annars vegar komin snekkjan Sailing Yacht A, sem komið hefur víða við á landinu síðustu vikur, og hins vegar glæsifleyið Le Grand Bleu.

Ein stærsta lúxussnekkja heims á Akureyri

Ein stærsta snekkja í heimi, sem ber nafnið Sailing Yacht A og er í eigu rússneska auðjöfursins Andrey Melnichenko, sigldi inn Eyjafjörð í kvöld og er stödd við Akureyri. Að því er greint er frá á akureyri.net í kvöld verður snekkjan í Krossanesvíkinni á næstunni, jafnvel í einhverjar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×