Fótbolti

Sara í hóp hjá Lyon og gæti leikið fyrsta leikinn í heilt ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir varð Evrópumeistari með Lyon fyrir tveimur árum.
Sara Björk Gunnarsdóttir varð Evrópumeistari með Lyon fyrir tveimur árum. getty/Giuseppe Cottini

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta, er í leikmannahópi Lyon fyrir leik liðsins gegn Saint-Étienne í frönsku úrvalsdeildinni á morgun.

Sara sneri aftur til æfinga hjá Lyon eftir áramót. Hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Ragnar Frank Árnason, 16. nóvember síðastliðinn.

Síðasti leikur sem Sara spilaði var með Lyon gegn Bröndby í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 10. mars í fyrra, eða fyrir ári síðan.

Sara hefur ekki spilað með landsliðinu síðan 1. desember 2020. Ísland tryggði sér þá sæti á EM með 0-1 útisigri á Ungverjalandi. Næstu leikir íslenska landsliðsins eru í undankeppni HM í næsta mánuði.

Lyon er með þriggja stiga forskot á Paris Saint-Germain á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar. Lyon hefur unnið alla fimmtán deildarleiki sína í vetur með markatölunni 64-6. Saint-Étienne, andstæðingur morgundagsins, er á botni deildarinnar með aðeins fimm stig.

Lyon mætir Juventus í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram í Tórínó 23. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×