Fótbolti

Hélt Ísaki utan hóps en fannst hann magnaður í gær

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson var óheppinn að skora ekki annað mark í leiknum eftir að hafa leikið framhjá markverði PSV en skotið var varið af varnarmanni á marklínunni.
Ísak Bergmann Jóhannesson var óheppinn að skora ekki annað mark í leiknum eftir að hafa leikið framhjá markverði PSV en skotið var varið af varnarmanni á marklínunni. Getty/Ulrik Pedersen

Ísak Bergmann Jóhannesson fékk hrós frá þjálfara FC Kaupmannahafnar eftir að hafa loksins í gær fengið að spila sinn fyrsta keppnisleik með liðinu á þessu ári.

Það vakti athygli að Ísak skyldi ekki einu sinni fá sæti á meðal varamanna í fyrstu þremur deildarleikjum FCK eftir vetrarfríið.

Hann kom hins vegar inn í hópinn fyrir leikinn gegn PSV Eindhoven í Evrópudeildinni í gærkvöld og skoraði eftir fimm mínútna leik, í 4-4 jafntefli, auk þess að vera afar nálægt því að skora annað mark rétt áður en FCK komst í 3-1 undir lok fyrri hálfleiks.

Jess Thorup, þjálfari FCK, tjáði sig um frammistöðu hins 18 ára Ísaks, sem reyndar verður 19 síðar í þessum mánuði, og hins 19 ára William Böving en þeir léku á sitt hvorum kantinum fyrir FCK.

„Við hjá FC Kaupmannahöfn erum ekki hræddir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri, burtséð frá því hvað þeir eru gamlir,“ sagði Thorup.

„Við erum með stóran leikmannahóp og sáum það á fyrri hluta leiktíðarinnar fyrir nokkrum mánuðum þegar við byrjuðum með marga unga leikmenn. Þeir fengu dýrmætar mínútur með aðalliðinu og eru því tilbúnir til að nýta tækifærin þegar þau koma. Tveir af þessum strákum – Ísak skoraði mark og Böving lék frábærlega þær 60 mínútur sem hann var á vellinum. Þeir voru magnaðir, báðir tveir,“ sagði Thorup við heimasíðu FCK.

Seinni leikur FCK við PSV er í Kaupmannahöfn næsta fimmtudag en í millitíðinni á FCK stórleik gegn Midtjylland í titilbaráttunni í dönsku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×