Fótbolti

Ísak skoraði fyrir FCK í átta marka jafntefli: Sjáðu markið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísak Bergmann í leik með íslenska landsliðinu. Hann skoraði fyrsta mark FCK í kvöld.
Ísak Bergmann í leik með íslenska landsliðinu. Hann skoraði fyrsta mark FCK í kvöld. Vísir/Jónína Guðbjörg

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði fyrsta mark FCK er liðið gerði 4-4 jafntefli gegn PSV Eindhoven í Sambandsdeild Evrópu í kvöld.

Ísak kom Kaupmannahafnarliðinu yfir strax á sjöttu mínútu með laglegu marki. Hann fékk boltann þá inn fyrir vörn PSV og lék á markvörð liðsins. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Ísak og staðan orðin 1-0.

Klippa: Ísak Bergmann skorar gegn PSV

Heimamenn í PSV jöfnuðu metin með marki frá Cody Gakpo áður en Pep Biel og Lukas Lerager sáu til þess að staðan var 3-1, FCK í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Ritsu Doan minnkaði muninn fyrir PSV snemma í síðari hálfleik og Cody Gakpo fékk tækifæri til að jafna metin fyrir liðið af vítapunktinum eftir klukkutíma leik, en klikkaði á spyrnu sinni.

Cody Gakpo bætti þó upp fyrir vítaklúðrið átta mínútum síðar þegar hann jafnaði loks metin fyrir heimamenn.

Dramatíkinni var þó ekki lokið því að Pep Biel kom FCK yfir á nýjan leik á 78. mínútu, áður en Eran Zahavi tryggði PSV 4-4 jafntefli fimm mínútum fyrir leikslok. Síðari leikur liðanna fer fram í Kaupmannahöfn að viku liðinni og þá kemur í ljós hvort liðið tryggir sér sæti í átta liða úrslitum.

Á sama tíma unnu Alfons Sampsted og félagar hans í Bodø/Glimt nauman 2-1 heimasigur gegn AZ Alkmaar, en það var Ola Solbakken sem tryggði liðinu sigur í uppbótartíma af vítapunktinum.

Alfons lék allan leikinn í hægri bakverði og lagði upp fyrra mark Bodø/Glimt.

Þá vann Leicester 2-0 sigur gegn Rennes og í Frakklandi vann Marseille 2-1 sigur gegn Basel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×