Innlent

Guð­mundur hættur störfum í bæjar­stjórn Kópa­vogs

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Gísli Geirdal dró fyrr í vikunni framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til baka og vísaði hann þar til persónulegra ástæðna.
Guðmundur Gísli Geirdal dró fyrr í vikunni framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi til baka og vísaði hann þar til persónulegra ástæðna.

Guðmundur Gísli Geirdal er hættur störfum sem bæjarfulltrúi í Kópavogi. Bæjarstjórn samþykkti beiðni Guðmundar um lausn frá störfum bæjarstjórnar og annarra trúnaðarstarfa fyrir bæjarstjórn Kópavogs til loka kjörtímabils á fundi sínum síðdegis á þriðjudag.

Í fundargerð segir að beiðnin hafi verið samþykkt með öllum ellefu greiddum atkvæðum.

Fyrr í vikunni var sagt frá því að Guðmundur hafi ákveðið að draga framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi sveitarstjórnarkosninga til baka og vísaði hann þar til persónulegra ástæðna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu höfðu fleiri en einn bæjarfulltrúi í Kópavogi gert athugasemd við hegðun Guðmundar, en kvörtun barst til Sjálfstæðisflokksins eftir atvik á viðburði sem bæjarfulltrúar í Kópavogi og starfsmenn sóttu í nóvember. 

Eftir að málið hafði verið tekið til skoðunar hjá flokknum var það sett í hendur ráðgjafarstofunnar Attentus í samræmi við viðbragðsáætlun.

Attentus skilaði svo skýrslu til flokksins í síðustu viku og var niðurstaðan sú – eftir að hafa rætt við Guðmund, þolanda og vitni – að Guðmundur hefði gerst sekur um hegðun sem flokka ætti sem kynferðislega áreitni og ofbeldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×