Sport

Ólympíumeistari bjargaði lífi fjögurra unglingsstúlkna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Steven Bradbury með Ólympíugullið sem hann vann á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002.
 Steven Bradbury með Ólympíugullið sem hann vann á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002. Getty/John Gichigi

Ástralski Ólympíumeistarinn Steven Bradbury var réttur maður á réttum stað um síðustu helgi þegar fjórar unglingsstúlkur lentu í vandræðum í ölduróti.

Bradbury vann Ólympíugullið sitt í skautaati á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002. Nú er hann 48 ára gamall og mikill brimbrettaáhugamaður.

Bradbury var á brimbrettum með syni sínum um helgina þegar hann kom auga á fjórar ungar stúlkur í miklum vanda.

Bradbury sagði sögu sína í sjónvarpsviðtali við 9News í Ástralíu og þar var líka viðtal við eina af stúlkunum sem hann bjargaði.

Stelpurnar fjórar voru á aldrinum þrettán til sautján ára gamlar og höfðu verið að synd á þeim stað á ströndinni þar sem engin vakt var í gangi.

Stelpurnar fjórar höfðu síðan lent í sjálfheldu í miklum öldugangi og voru í mikilli lífshættu þegar Ólympíumeistari kom auga á þær. Þarna voru um tveggja metra háar öldur og stelpurnar vissu ekki lengur hvaðan á sig stóð veðrið. Það var ekki langt í að að sjórinn tæki þær.

„Ég vissi að það var enginn annar og þarna var bara adrenalínið á fullu,“ sagði Steven Bradbury.

Bradbury komst til þeirra en sendi soninn um leið eftir hjálp. Ein stúlknanna var mjög hætt komin þegar björgunaraðilar komu á staðinn en það var líka ljóst að hinar þrjár áttu líf sitt honum einnig að þakka.

Það má sjá umfjöllun 9News hér fyrir ofan en fyrir neðan má sjá þegar hann vann Ólympíugullið sitt eftir ótrúlegan endakafla í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×