Erlent

„Munum refsa öllum sem framið hafa voðaverk í þessu stríði“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ávarp frá Selenskí birtist í kvöld og þar sagði hann þvinganir Vesturlanda gegn Rússum ekki ganga nógu langt.
Ávarp frá Selenskí birtist í kvöld og þar sagði hann þvinganir Vesturlanda gegn Rússum ekki ganga nógu langt. Vísir/AP

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hélt ávarp í kvöld þar sem hann fordæmdi þögn Vesturlanda við þeim ummælum varnarmálaráðuneytis Rússa að varnarinnviðir Úkraínumanna yrðu sprengdir á morgun.

Í ávarpi sínu kallaði Selenskí þessar árásir Rússa morð vegna þess fjölda fólks sem býr í nágrenni við skotmörkin. Hann fordæmdi þögn Vesturlanda vegna yfirlýsingar varnarmálaráðuneytis Rússa og sagði að það væri eins og leiðtogar Vesturlanda hefðu leysts upp.

„Rússar hafa lýst yfir að þeir muni sprengja varnarinnviði okkar á morgun. Flest skotmarkanna eru í borgum með almenna borgara allt í kring. Þetta er morð, einfaldlega morð. Ég sé engan leiðtoga í veröldinni bregðast við þessu. Engan stjórnmálamann á Vesturlöndum.“

Hann ítrekaði enn og aftur ósk sína um frekari þvinganir gagnvart Rússum og sagði þvinganirnar hingað til ekki hafa haft nægilega mikil áhrif.

 Í ávarpinu talaði Selenskí einnig um árásarnir sem gerðar voru á almenna borgara sem voru að flýja Irpin í úthverfi Kænugarðs.

„Í dag lést fjögurra manna fjölskylda í Irpin þegar þau voru að reyna að yfirgefa borgina. Við munum ekki fyrirgefa. Við munum ekki gleyma,“ sagði Selenskí en alls létust átta almennir borgarar þegar sprengjum var varpað á varðstöð í Irpin þar sem almenningur var á leið út úr borginni.

„Dirfskan í þessum árásum er skýrt merki til Vesturlanda að þvinganirnar sem hefur verið beitt duga ekki til. Það er ekki hægt að fela sig fyrir þessum raunveruleika. Það er ekki hægt að fela sig fyrir þessum nýju morðum í Úkraínu.“

Selenskí segir að öllum verði refsað fyrir þessa atburði.

„Við munum refsa öllum þeim sem framið hafa voðaverk í þessu stríði. Við munum finna alla þá sem eru að sprengja borgirnar okkar, fólkið okkar. Þá sem hafa skotið eldflaugum og þá sem hafa fyrirskipað árásir. Þeir munu ekki eiga friðsælan stað á þessari jörðu, nema í gröfinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×