Enski boltinn

Bæjarar horfa áfram til ensku B-deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Djed Spence er einkar eftirsóttur.
Djed Spence er einkar eftirsóttur. Jon Hobley/Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München hafa tök á að sækja leikmenn í nær hvaða lið sem þeim dettur í hug, slíkt er aðdráttarafl félagsins. Það vekur því athygli að Bæjarar horfi nú í annað sinn á skömmum tíma í ensku B-deildina í leit að leikmönnum.

Ekki er langt síðan Vísir fjallaði um óvæntan áhuga ítalskra knattspyrnuliða á enskum leikmönnum, þá sérstaklega miðvörðum. Áhugi þýskra úrvalsdeildarliða á ungum og efnilegum enskum leikmönnum er ekki nýr undir sólinni en þá hafa lið helst leitað í akademíur sterkustu liða Englands.

Bæjarar fara ótroðnar slóðir en á síðasta ári sömdu þeir við bakvörðinn Omar Richards en hann frá Reading á frjálsri sölu. Hinn 24 ára gamli Richards hefur komið við sögu í alls 14 leikjum á leiktíðinni.

Samkvæmt Sky Sports horfa forráðamenn Bayern til ensku B-deildarinnar í leit að bakverði á nýjan leik. Um er að ræða hinn 21 árs Djed Spence sem leikur í dag með Nottingham Forest en hann er þar á láni frá Middlesbrough, öðru B-deildarliði.

Spence ku hafa heillað njósnara Bayern en ólíkt Richards þá er verður hann ekki samningslaus fyrr en sumarið 2024. Það er því ljóst að Bæjarar fá Spence ekki frítt og svo er alls óvíst hvort Bayern fái leikmanninn yfir höfuð en fjöldi þýskra liða horfir hýru auga til Nottingham.

Talið er að Borussia Dortmund, RB Leipzig og Bayer Leverkusen hafi öll áhuga á leikmanninum. Þá hafa Lundúnafélögin Arsenal og Tottenham Hotspur einnig áhuga á að fá Spence í sínar raðir.

Það er ljóst að Middlesbrough ætti í sumar að geta valið úr tilboðum í leikmann sem félagið taldi ekki nægilega góðan fyrir ensku B-deildina fyrir nokkrum mánuðum síðan.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×