Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - Njarð­vík  116-120 | Njarð­víkingar náðu í sigur í framlengdum háspennuleik

Árni Jóhannsson skrifar
Logi Gunnarsson í leik með Njarðvík.
Logi Gunnarsson í leik með Njarðvík. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvíkingar náðu í dýrmæt stig í toppbaráttunni þegar þeir unnu Breiðablik í Smáranum eftir framlengdan leik 116-120. Ég segi dýrmæt því þegar minna en mínúta var eftir af venjulegum leiktíma voru Njarðvíkingar undir en jöfnuðu og náðu í sigurinn. Blikar gáfu þeim mikla keppni eftir að hafa verið undir ca. 80% af leiknum.

Leikurinn byrjaði heldur betur af krafti og skiptust liðin á körfum og blaðamaður átti mjög erfitt, verður að viðurkennast, að koma orðum að um hvernig leikurinn var að þróast. Bæði lið tóku síðan sín áhlaup en Njarðvíkingar voru ögn betri og náðu að vera með fimm stiga forskot þegar fyrsta leihluta lauk. Staðan 25-30 og engin leið að vita hvernig þetta myndi þróast.

Annar leikhluti var eign Njarðvíkinga en þeir náðu að stöðva heimamenn í sínum aðgerðum og búa til forskot sem þó varð ekki nema 13 stig þegar uppi var staðið í hálfleik. Njarðvíkingar bjuggu til forskotið en náðu aldrei að slíta sig frá Blikum þannig að þeir gætu verið rólegir í tíðinni.

Þriðji leikhluti var á sömu leið og annar leikhlutinn nema að nú héldu Blikar í við andstæðinga sína þannig að áhlaup þeirra voru betri en Njarðvíkingar í bílstjórasætinu. Blikar náðu að fara á 12-2 sprett til að minnka muninn úr 17 stigum niður í sjö stig þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en gestirnir stigu þá aftur á bensínsgjöfina og náðu aftur forskotinu í tveggja stafa tölu 68-82 þegar flautan gall.

Það sem gerðist svo í fjórða leikhluta er ótrúlegt. Blikar höfðu ekki hitt nógu vel í leiknum þangað til en fóru að setja niður þrista í bunkum með Danero Thomas í fararbroddi en kappinn endaði með níu þriggja stiga körfur í 14 tilraunum og leiddi endurkomu Blika. Staðan fór úr 80-87 í að vera 96-91 fyrir heimamenn þegar um tvær mínútur voru eftir. Njarðvíkingar voru þá að vakna við vondan draum en sóknarleikur þeirra varð ansi stífur í lok venjulegs leiktíma. Þeir náðu að jafna metin, 100-100, þegar sjö sekúndur voru eftir en Blikar gerðu heiðarlega tilraun til að tapa leiknum.

Blikar reyndu að dúndra boltanum fram í staðinn fyrir að fá hann inn en hentu boltanum frá sér í staðinn og Richotti fékk lokaskotið sem geigaði. Því var framlengt og stuðið hélt áfram. Liðin skiptust á körfum þangað til að staðan var 116-116 og hvað sem Njarðvíkingar gerðu gátu Blikar líka eins og segir í laginu. Njarðvíkingar komust svo yfir með þrist frá Maciej Baginski og hentu Blikar frá sér boltanum og brutu á Basile sem skoraði úr einu víti. Lengra komust heimamenn ekki og Njarðvíkingar tylltu sér á topp deildarinnar.

Afhverju vann Njarðvík?

Gæði Njarðvíkinga eru mikil og ná langt aftur á bekkinn hjá þeim. Þeir unnu því þeir gátu kafað dýpra og fengið stórar körfur frá mönnum eins og Maciej Baginski þegar á hólminn var komið. Þeir hleyptu Blikum inn í leikinn en klaufaskapur heimamanna í lok venjulegs leiktíma og lok framlengingar gerðu þeim enga greiða.

Bestir á vellinum?

Blikar fengu 37 stig frá Danero Thomas og 15 fráköst sem gera 45 framlagsstig. Hann var á löngum köflum langbestur á vellinum og leiddi endurkomu Blika í venjulegum leiktíma. Everage Lee Richardson lagði sín 34 stiga lóð á vogarskálarnar en því miður dugði það ekki til. 

Hjá Njarðvíkingum var Haukur Helgi Pálsson stigahæstur með 22 stig en sjö leikmenn gestanna skoruðu meira en 12 stig. Það sýnir okkur hve breidd Njarðvíkinga er ógnvænleg.

Tölfræði sem vakti athygli

Breiðablik klikkaði á 12 vítaskotum í leiknum og í leik þar sem litlu má muna þá telur svona tölfræði heldur betur. Þá verður að minnast á að leikmenn af bekk Njarðvíkinga skoruðu 36 stig en varamenn Blika náðu einungis í fjóra punkta.

Hvað næst?

Njarðvíkingar eru á toppi deildarinnar en Þór frá Þorlákshöfn spilar á morgun. Þeir var á Ísafjörð næst og eiga sigurinn vísan þar með fullri virðingu fyrir Vestra en taflan lýgur ekki. Breiðablik fer á Akureyri og ef allt er eðlilegt þá eigar Blikar að vinna þann leik en gengi þeirra á útivelli er ekki gott hingað til.

Danero: Ég er bara að hugsa um að ná í sigurinn

Eins og gefur að skilja var Danero Thomas svekktur með úrslit leiksins úr því sem var komið í leik Breiðabliks og Njarðvíkur fyrr í kvöld. Leikar enduðu 116-120 eftir framlengingu og sagði Danero að klikk í varnarleiknum hefði kostað þá.

„Varnarleikurinn hjá okkar brotnaði saman þegar á reyndi í lok leiksins. Þeir eru stærri en við og þegar við þurfum að skipta mér á bakvörðinn þá ná þeir að koma boltanum inn á stóra manninn sem getur síðan sent hann út á opna manninn þegar ég t.d. hjálpa. Þetta var aðalmálið. Við þurfum að verða betri í hjálparvörninni af veiku hliðinni og reyna verða betri í að vera skrefinu á undan. Mér fannst við vera tveimur skrefum á eftir í kvöld þegar stóri maðurinn fékk boltann. Við þurfum bara að verða betri varnarlega.“

Danero átti stórleik og skoraði 37 stig fyrir sína menn og hann var spurður að því hvað væri að fara í gegnum huga hans þegar hann leiddi endurkomu sinna manna í fjórða leikhluta.

„Ég er bara að hugsa um að ná í sigurinn. Við eigum fjóra leiki eftir núna eftir þennan leik og mér fannst að ef við næðum að vinna Njarðvík þá yrði lokaspretturinn auðveldari fyrir okkur. Við hefðum náð að sprengja upp þessa baráttu. Við eigum eftir að fara á Akureyri og á Ísafjörð en það eru leikir sem við eigum að vinna og við hefðum mögulega náð þremur sigrum í röð. Þá væri baráttan um sæti í úrslitakeppninni galopin. Við erum með sjálfstraustið og ég verð að hjálpa okkur að ná í þennan sigur.“

Talandi um sjálfstraust en Danero var spurður að því hvort tapið í kvöld myndi dælda sjálfstraustið í Blika liðinu.

„Ég er ekki á því að það dældast. Við erum eitt besta heimaliðið, hvernig við spilum það sýnir að við erum kokhraustur hópur sem er kannski pínu kærulaus. Við eru samt eitt af erfiðari liðunum að eiga við þrátt fyrir að vera litlir en við erum baráttuglaðir.“

Að lokum var Danero spurður út í markmið Blika. Þeir falla varla úr þessu og það er möguleiki á að komast í úrslitakeppnina.

„Við erum enn í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina. Ef við náum í þrjá sigra í viðbót þá eigum við góða möguleika á að komast þangað. Liðin í þessari baráttu eiga öll nánast eftir að eigast við innbyrðis og einhverjir þurfa að tapa. Ef við náum í þrjá sigra eða jafnvel vinnum rest þá erum við í góðum málum. Það er samt bara einn leikur í einu og við ætlum okkur í úrslitakeppnina.“


Tengdar fréttir

Benedikt Guðmundsson: Ég er bara virkilega ánægður með að fara héðan með sigur

Benedikt Guðmundsson vissi alveg að leikurinn við Breiðablik yrði ekki gefins og sú varð raunin þegar Njarðvíkingar náðu í sigur með erfiðasta móti 116-120. Njarðvíkingar virtust vera með góða stjórn á leiknum en Blikar eru óútreiknanlegt lið og ef þeir komast í gírinn sinn þá er erfitt að eiga við þá. Benedikt var því virkilega ánægður með sigurinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira