Erlent

Komi ekki til greina að Rússar hætti innrásinni í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, líkti Bandaríkjamönnum við Hitler í dag og sagði aðra en Rússland hafa hótað kjarnorkuárásum.
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, líkti Bandaríkjamönnum við Hitler í dag og sagði aðra en Rússland hafa hótað kjarnorkuárásum. AP/rússneska utanríkisráðuneytið

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að ekki kæmi til greina að Rússar myndu hætta innrásinni í Úkraínu. Henni yrði haldið áfram þar til Rússar næðu markmiðum sínum.

Þá sagðist hann sannfærður um að Rússar, sem eru að gera markvissar loftárásir á almenna borgara, væru í rétti í Úkraínu. Þeir hefðu rétt á að verja hagsmuni sína og Úkraínu yrði ekki leyft að ógna Rússlandi.

Lavrov sagði einnig á blaðamannafundi sem fór fram í morgun að Rússar væru ekki einangraðir í alþjóðasamfélaginu og sagðist hann sannfærður um að ­létt yrði á refsiaðgerðum á endanum.

Þá þvertók ráðherrann fyrir að Rússar væru að gera árásir á borgara og sagði her Rússlands hafa verið skipað að nota nákvæm vopn gegn hernaðarlegum skotmörkum.

Fregnirnar af árásum Rússa á almenna borgara og innviði eru fjölmargar og studdar af myndefni. Búið er að hefja rannsókn á meintum stríðsglæpum Rússa í Úkraínu.

Aðrir hafi hótað kjarnorkustríði

Á sama blaðamannafundi líkti Lavrov Bandaríkjunum við Hitler og Napóleon. Hann sagði báða hafa reynt að leggja undir sig Evrópu en Bandaríkjunum hefði tekist það.

Spurður um það hvort Vladimír Pútín, forseti Rússlands, myndi beita kjarnorkuvopnum, sem hann hefur sett í viðbragðsstöðu, sagði Lavrov að það væru aðrir sem hefðu hótað kjarnorkustríði og nefndi hann Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, og Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.

Hið rétta er að Lavrov og Pútín hafa ítrekað hótað kjarnorkustríði undir rós á undanförnum vikum.

Samkvæmt Sky News var Lavrov skömmu seinna spurður að því hvort hægt hefði verið að grípa til annarskonar aðgerða en refsiaðgerða, sagði hann það eina vera þriðju heimsstyrjöldina og að allir skildu að það yrði kjarnorkustyrjöld.

Þá sakaði Lavrov úkraínska hermenn um að koma illa fram við almenna borgara í Donbas og að skýla sér á bakvið borgara. Hann sagði Úkraínumenn vera ribbalda og ný-nasista, sem Rússar hafa verið gjarnir á að segja að undanförnu.

Líkt og áður kemur fram hafa Rússar ítrekað verið sakaðir um árásir á almenna borgara undanfarna daga og að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn rannsakar nú meinta stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.

Fylgjast má með nýjustu vendingum í Úkraínu í vaktinni á Vísi.


Tengdar fréttir

Vaktin: Sagðir hafa fellt háttsettan rússneskan herforingja

Vísir heldur áfram að fylgjast með þróun mála í Úkraínu, þar sem rússneski herinn hefur markvisst beint sjónum sínum að mikilvægum innviðum síðasta sólahringinn. Margir Úkraínumenn eru nú án vatns, rafmagns og hita og fjöldi heimila hefur verið eyðilagður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×