Erlent

Grunn­skóla­börn hand­tekin í Moskvu fyrir að leggja blóm við úkraínska sendi­ráðið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Börnunum var sleppt lausum þegar lögmaður þeirra mætti á lögreglustöðina.
Börnunum var sleppt lausum þegar lögmaður þeirra mætti á lögreglustöðina. Twitter/@novaya_gazeta

Að minnsta kosti fjögur grunnskólabörn og foreldrar þeirra voru handtekin í Moskvu í gær þegar þau lögðu blóm við úkraínska sendiráðið og héldu á skiltum sem á stóð „Nei við stríði“.

Þúsundir hafa mótmælt innrás Rússa í Úkraínu um allt Rússland undanfarna daga. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um 6.400 hafi verið handteknir í Rússlandi undanfarna viku fyrir að taka þátt í mótmælunum. 

Nokkrir voru handteknir fyrir mótmæli í gær í Sankti Pétursborg og í Moskvu, þar á meðal nokkur grunnskólabörn og foreldrar þeirra. Þau höfðu verið að leggja blóm við úkraínska sendiráðið þegar lögregla handtók þau en þeim var síðar sleppt þegar lögmaður þeirra mætti á Presnenskoye lögregustöðina.

Mannréttindastofnun SÞ hefur kallað eftir því að mótmælendum verði sleppt úr haldi. Á sunnudag mættu mótmælendum lögreglumenn í óeirðarbúningum og samkvæmt fréttastofu AP voru mótmælendur dregnir inn í lögreglubíla þrátt fyrir að mótmælin voru friðsamleg. 

Samkvæmt OVD-Info mannréttindasamtökunum, sem fylgjast með pólitískum handtökum, voru minnst 356 Rússar handteknir í 32 borgum vegna mótmæla gegn stríðinu. 

Þá segir í frétt AP að stjórnvöld í Kreml hafi gert allt sem þau geta til að gera lítið úr mótmælunum og hafa haldið því fram að mun færri hafi mótmælt stríðinu en raun ber vitni. Meirihluti þjóðarinnar styðji „sértækar hernaðaraðgerðir“ Rússa í Úkraínu. 


Tengdar fréttir

Mótmæli við sendiráðið: „Erfitt að lýsa þessu með orðum“

Rússneskur blaðamaður búsettur á Íslandi kveðst skammast sín fyrir hönd þjóðar sinnar í dag, nú þegar rússneski herinn hefur ráðist af fullum mætti inn í Úkraínu. Boðað er til mótmæla við rússneska sendiráð við Túngötu klukkan 17.30.

Umheimurinn bregst harkalega við innrás Rússa

Leiðtogar ríkja um allan heim hafa fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og boða hertar refsiaðgerðir gegn þeim. Pútin Rússlandsforseti hótar öllum þeim sem reyni að stöðva innrásina afleiðingum sem aldrei hafi sést áður í veraldarsögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×