Innlent

Húsa­­göturnar helsta úr­­­lausnar­efnið

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Asahláka hefur sett svip sinn á höfuðborgarsvæðið.
Asahláka hefur sett svip sinn á höfuðborgarsvæðið. Vísir/Sigurjón

Vond færð er víða í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu en klaki gerir þeim sem sinna snjómokstri erfitt fyrir. Tugir snjómoksturstækja aka nú um göturnar til að reyna að ryðja en hafa vart undan líkt og síðustu vikurnar.

Mikil úrkoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur. Í morgun tók að rigna og klaki hefur víða myndast. Hann gerir nú þeim sem sinna snjóruðningi erfitt fyrir og verkefnin eru mörg.

„Fyrst og fremst eru það húsagöturnar sem bara því miður eru að myndast klakar á og við þurfum stærri vélar til þess að reyna að brjóta hann upp og erum að vinna í því. 

Síðan er núna svona gamaldags íslenskt rok og rigning, það er að hlána og þá náttúrulega í svona aðstæðum myndast pollar og við erum að vinna í því að láta þá fara niður,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins. Hann segir allar stofn- og tengibrautir vel ruddar.

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins.Vísir

Allt að sextíu vélar á fullu

„Það eru húsagöturnar sem eru úrlausnarefnið og þær eru bara ekki góðar. Það verður bara að segjast eins og er og við erum að reyna að vinna í þessu að brjóta upp klaka þar sem verst er. Þetta er ekki gott ástand og við viljum biðja fólk að sýna þessu bara smá biðlund. Við erum að vinna í þessu á fullu og það eru tugir tækja úti og þetta er bara erfitt verkefni,“ segir Hjalti.

Hann bætir við að álagið hafi verið mikið síðustu vikurnar.

„Eiginlega frá 7. febrúar, sem sagt þegar fyrsti stormurinn reið yfir, þá hafa verið örugglega svona milli fjörutíu og sextíu vélar úti hvern einasta dag.“

Fjöldi moksturmanna vinna nú að því að moka götur borgarinnar. Vísir/Lillý



Fleiri fréttir

Sjá meira


×