Erlent

Selenskí segir á­rásina á ráð­húsið í Karkív vera hryðju­verk

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu segir árásina á Karkív hafa verið hryðjuverkaárás.
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu segir árásina á Karkív hafa verið hryðjuverkaárás. Skjáskot

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að eldflaugaárásin á ráðhúsið í Karkív í morgun sé hryðjuverk. Í nýju ávarpi segir forsetinn að Rússar ætli sér að nota slík ódæði til að draga úr baráttuanda Úkraínumanna.

„Markmið hryðjuverkanna er að brjóta okkur á bak aftur,“ segir Selenskí í ávarpinu sem hann birti á Telegram. Þar segir hann jafnframt að Kænugarður og Karkív séu helstu skotmörk Rússa.

„Eldflaugaárás á Karkív. Á stærsta torgið í Evrópu. Frelsistorgið. Tugir fórnarlamba. Þetta er kostnaður frelsis,“ segir Selenskí í ávarpinu.

Hann segir að eftir eldflaugaárásina á Karkív, sem skotið var frá rússnesku borginni Belgorod hafi allt breyst. Áður hafi borgirnar verið systurborgir, fólkið þar litið á hvort annað sem frændur og landamærin aðeins verið á korti, ekki í hugum fólks. 

„Þetta er hryðjuverkaárás á borgina, það var ekkert hernaðarlegt skotmark á torginu, alveg eins og í íbúahverfunum í Karkív sem hafa orðið fyrir eldflaugum Rússa. Eldflaugin, sem beint var að torginu er ekkert nema hryðjuverk. Enginn mun fyrirgefa, enginn mun gleyma.“

Hann segir árásina stríðsglæp. 

„Rússland stendur að baki þessari hryðjuverkaárás, eftir allt saman er Rússland hryðjuverkaríki. Greinilega. Við köllum eftir því að ríki heims lýsi því yfir að Rússland hafi framið hryðjuverk. Við köllum eftir því að hryðjuverkamennirnir verði dregnir fyrir alþjóðlega dómstóla,“ segir Selenskí.


Tengdar fréttir

Búa til bensínsprengjur og smyrja brauð

Íslendingur í Kænugarði segir það hafa verið magnað að fylgjast með samstöðu Úkraínumanna á síðustu dögum. Hann heimsótti sjálfboðaliða í borginni í gær sem elda mat ofan úkraínska hermenn í fremstu víglínu.

Hver er Vólódímír Selenskí?

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu hefur heldur betur verið milli tannanna á fólki undanfarna daga. Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur Selenskí haldið þjóð sinni upplýstri með reglulegum færslum á samfélagsmiðlum og ákveðið að halda kyrru fyrir í heimalandinu, þrátt fyrir boð um aðstoð til flótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×