Sport

Klitschko boxbræðurnir báðir í stríðið gegn Rússum: „Ég verð að berjast“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wladimir Klitschko fagnar sigri í hnefaleikhringnum með úkraínska fánann.
Wladimir Klitschko fagnar sigri í hnefaleikhringnum með úkraínska fánann. Getty/Martin Rose

Tvær af stærstu íþróttastjörnum Úkraínumanna í sögunni eru meðal þeirra sem hafa haldið kyrru fyrir í landinu til að berjast gegn innrás rússneska hersins.

Boxbræðurnir Wladimir Klitschko og Vitaly Klitschko urðu báðir heimsmeistarar í hnefaleikum á sínum tíma og þeir ætla ekki að hlaupa frá borði þegar þjóðin þeirra þarf á þeim að halda.

Wladimir er 45 ára gamall og Vitaly er fimm árum eldri. Litli bróðirinn biðlaði til heimsins um að gera allt til að stöðva stríðið.

„Ég er Wladimir Klitschko og hvet ákaft heiminn til að stoppa þetta stríð sem Rússland byrjaði. Í dag voru óbreyttir borgarar drepnir með eldflaugum,“ sagði Wladimir Klitschko.

„Þetta er að gerast í hjarta Evrópu. Það er enginn tími til að bíða áður en þetta verða mannlegar hörmungar. Þú verður að gera eitthvað núna til að stoppa sókn Rússa. Á morgun verður það of seint. Stöðvið þetta stríð,“ sagði Wladimir.

Hann gekk í varaliði úkraínska hersins fyrr í þessum mánuði og hefur því verið kallaður út. Eldri bróðirinn, Vitaly Klitschko, er ríkjandi borgarstjóri Kænugarðs og hefur verið það frá árinu 2014. Vitaly ætlar líka að berjast.

„Ég hef ekkert val. Ég verð að berjast og ég mun berjast,“ sagði Vitali Klitschko í Good Morning Britain þættinum á ITV. Ég trúi á Úkraínu. Ég hef trú á minni þjóð og á mínu fólki,“ sagði Vitali.

Fleiri frægir úkraínskir hnefaleikamenn hafa fylgt fordæmi Klitschko bræðra en einn af tíu bestu hnefaleikamönnum heims í dag, Vasiliy Lomachenko, mun einnig berjast. Lomachenko er 34 ára og varð Ólympíumeistari bæði 2008 í Peking og í London 2012.

„Við erum svo stolt af okkar hnefaleikamönnum, þeir eru sannir meistarar í hringnum og líka í þessu stríði. Við erum stoltir að vera Úkraínumenn,“ sagði Mykola Kovalchuk, formaður hnefaleikasamband Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×