Erlent

Stjórn­völd hvetja íbúa til að berjast gegn Rússum með bensín­sprengjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Slökkviliðsmenn slökkva eld í íbúðabyggingu í Kænugarði sem varð fyrir flugskeyti í dag.
Slökkviliðsmenn slökkva eld í íbúðabyggingu í Kænugarði sem varð fyrir flugskeyti í dag. Getty/Pierre Crom

Rússneski herinn er nú kominn inn í Obolon-hverfið í Kænugarði, um níu kílómetra norður af þinghúsinu í miðborg Kænugarðs. Úkraínsk stjórnvöld hafa hvatt íbúa til að berjast gegn innrásarhernum, meðal annars með því að útbúa bensínsprengjur.

Sprengingar og skothljóð heyrast í norðurhluta borgarinnar. Þetta kemur fram í frétt AFP sem vísar í Twitter-færslu frá úkraínska varnarmálaráðuneytinu.

Áður höfðu úkraínskir ráðamenn spáð því að Rússar myndu gera skriðdrekaárás á borgina í dag.

„Almenningur reynir nú að komast í öruggt skjól og heyra má skothljóð og sprengjur í Obolonsky hverfinu. Heyra má stærri sprengingarnar í miðborginni,“ segir í frétt AFP.

Rússneskar hersveitir komu að borgarmörkunum í gær þegar þyrlusveitir reyndu að ná yfirráðum á nálægum flugvelli.

„Við hvetjum almenning til að láta okkur vita af ferðum innrásarhersins, að búa til Molotov kokteila og reyna að stöðva óvininn,“ segir í tilkynningu úkraínska yfirvalda. 

Eftir nokkurra klukkustunda hvíld hófst árás Rússa aftur klukkan fjögur að staðartíma í nótt. Volódímír Selenskíj, forseti Úkraínu, hefur heitið því að halda kyrru fyrir í Kænugarði á meðan úkraínski herinn verst árásum Rússa.

Þá gaf einn helsti ráðgjafi úkraínska innanríkisráðuneytisins út í morgun að þeir sem „standi vörð um Kænugarð“ séu reiðubúnir með varnarkerfi gegn skriðdrekum sem Úkraínumenn hafi fengið frá erlendum samstarfsþjóðum.

Fylgjast má með nýjustu vendingum í Úkraínu í vaktinni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×