Erlent

Vaktin: Hart barist í Kænugarði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, Samúel Karl Ólason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Rússneskur skriðdreki á leið frá Krímskaga yfir landamæri Úkraínu.
Rússneskur skriðdreki á leið frá Krímskaga yfir landamæri Úkraínu. Sergei Malgavko\TASS via Getty

Loftárásir Rússa hófust aftur klukkan fjögur í nótt að staðartíma í Úkraínu. Nú er sólarhringur liðinn síðan Rússar hófu allsherjarinnrás í Úkraínu og talið er að tæplega 140 Úkraínumenn hafi fallið í átökunum. 

Rússar eru nú komnir inn í Kænugarð. Almenningur hefur verið hvattur til að halda yfirvöldum upplýstum um staðsetningu innrásarhersins og hann hvattur til að streitast á móti og til dæmis vopna sig með mólótóv kokteilum. 

Volódímír Selenskí forseti Úkraínu greindi frá því ávarpi til þjóðar sinnar í morgun að tugir flugskeyta hafi lent á úkraínskum borgum í morgun. Þá hafi fjöldi sprengja heyrst í höfuðborginni Kænugarði. Óskar Hallgrímsson, íbúi í Kænugarði og ljósmyndari, segir í samtali við Vísi nú laust fyrir klukkan sjö að hann og fjölskylda hans séu stödd í sprengjuskýlinu í kjallaranum heima. 

Í ávarpi Selenskíj í morgun greindi hann frá því að 137 úkraínskir hermenn og borgarar hafi fallið í átökunum og að 316 hafi særst. Þá kallaði hann enn og aftur eftir hernaðarstuðningi vesturveldanna. 

Í ávarpi sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hélt í gærmorgun, þar sem hann lýsti yfir stríði, sagði hann að  markmiðið væri að brjóta niður hernaðarmátt Úkraínu og „að afmá nasismann“ sem hann og rússneskir fjölmiðlar hafa haldið fram að grasseri í Úkraínu. Úkraínumenn hafa bent á að það hljómi nokkuð fáránlega, þar sem Selenskíj er gyðingur.

Pútín hefur undanfarnar vikur krafist þess að Atlantshafsbandalagið hætti útrás sinni til austurs og þess að Úkraína fái ekki möguleika á að ganga til liðs við bandalagið. 

Pútín hefur á síðustu dögum gert ljóst að hann telji Úkraínu ekki réttmætt ríki og í langri ræðu sem hann flutti á mánudaginn, þegar hann opinberaði að hann hefði viðurkennt sjálfstæði Luhansk og Donetsk og skrifað undir varnarsáttmála við leiðtoga héraðanna, sagði forsetinn að það hefðu verið mikil mistök að aðskilja Úkraínu frá Rússlandi við fall Sovétríkjanna.

Undanfarinn sólarhring hafa hundruð verið handtekin í Rússlandi eftir að mótmæli brutust þar víða út vegna innrásarinnar. Lögreglan hefur handtekið minnst 1.702 mótmælendur, samkvæmt eftirliti OVD-Info, en flestir voru handteknir í Moskvu og Sankti Pétursborg.

Það sem vitað er um ástandið í Úkraínu í dag:

  • Rússar hófu árásir í Úkraínu að nýju klukkan fjögur í nótt. Fjöldi sprenginga heyrðist í Kænugarði í morgun og minnst tvær byggingar stóðu í ljósum logum eftir að rússnesk flugvél var skotin niður yfir borginni. Skothríðin beindist fyrst um sinn að miklu leyti að flugvöllum Úkraínuhers og loftvörum fyrst um sinn en svo virðist nú að hún sé farin að beinast meira og meira að íbúabyggingum. 
  • Rússar eru komnir inn í Obolon-hverfið í norðurhluta Kænugarðs. Volódímír Selenskíj forseti Úkraínu telur sjálfan sig helsta skotmark Rússa. Hann telur að Rússar viji koma sér frá valdastóli en segist ætla að halda kyrru fyrir í Kænugarði. 
  • Selenskíj greindi frá því í ávarpi í gærkvöldi að 137 hafi fallið og 316 særst. Bera verður þó í huga að tölur um mannfall hafa borist víða að en þær eru að mestu leyti óáreiðanlegar fyrst um sinn. Bardagar hafa geisað milli þúsunda manna víðsvegar um Úkraínu. 
  • Varnir Úkraínumanna í austri virðast hafa haldið vel hingað til en Rússar hafa náð valdi á Tsjernóbíl kjarnorkuverinu, sem stendur norður af höfuðborginni og Rússar að gera stórsókn að Kænugarði þaðan. Þá hafa varnir við Krímskaga hríðfallið og rússneskar hersveitir náð landi þar.
  • Allir karlmenn á milli 18 og 60 hafa verið kvaddir í herinn og þeim meinað að fara úr landi. 
  • Þúsundir flýja nú í vesturátt frá Kænugarði og hafa miklar bílaraðir myndast út úr borginni. Nágrannaríki Úkraínu í til vesturs hafa opnað landamæri sín fyrir fólk á flótta undan átökunum. Sameinuðu þjóðirnar telja að hundruð þúsund manna hafi þurft að flýja Úkraínu.
  • Innrásin hefur verið fordæmd og gagnrýnd víða um heim. Alþjóðasamfélagið hefur boðað hertar refsiaðgerðir gegn Rússlandi en Bretland, Bandaríkin og Evrópusambandið kynntu umfangsmiklar aðgerðir í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira
×