Innlent

Sextán íslenskir ríkisborgarar enn í Úkraínu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bílalest Rússa á Krímskaga.
Bílalest Rússa á Krímskaga. Vísir/AP

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins fylgist grannt með stöðu 28 einstaklinga sem staddir eru í Úkraínu. Sextán þeirra eru íslenskir ríkisborgarar og hinir tólf hafa náin tengsl við Ísland, eru annað hvort makar eða börn íslenskra ríkisborgara.

Þetta staðfestir Sveinn Guðmarsson fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins í samtali við Vísi. 

„Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins er með 28 á sinni skrá yfir þá sem staddir eru í Úkraínu. Þar af eru sextán íslenskir ríkisborgarar, hinir eru með náin tengsl við íslenska ríkisborgara, það er makar eða börn,“ segir Sveinn. 

„Þetta er meiri fjöldi en við gáfum upp í gær og það helgast af því að fleiri hafa látið í sér heyra og sett sig í samband við borgaraþjónustuna,“ segir Sveinn. 

Hann segir ekki standa til eins og er að boða til neyðarflutninga frá Úkraínu. Hann segir þorra fólksins hafa búsetu í Úkraínu.

„Við erum í mjög nánu samstarfi við norrænar systurstofnanir og eins og sakir standa eru ekki áform um neyðarflutning. Tilmæli eru almennt til fólks að huga mjög vel að öryggi sínu og meta allar fyrirætlanir út frá því. Út frá því til dæmis að það að reyna að komast úr landi með ótryggum leiðum er ekki það öruggasta sem viðkomandi getur gert.“

Hægt er að fylgjast með gangi mála í Úkraínu í vaktinni á Vísi. 


Tengdar fréttir

„Ég svara ykkur eftir nokkra daga ef ég verð enn á lífi“

Þessi orð mælti faðir Oksönu Shabatura þegar hún bað hann um að leggja mat á ástandið og spá fyrir um framhaldið í Úkraínu. Þau eru til marks um þá óvissu og skelfingarástand sem almenningur í Úkraínu býr nú við.

Rúss­neski sendi­herrann kallaður á teppið

Mikhaíl V. Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi var kallaður á teppið í utanríkisráðuneytingu, bæði í gær og í dag, þar sem íslensk stjórnvöld fordæmdu árásir Rússa í Úkraínu. Forsætisráðherra segir það sorglegt að stríðsátök hafi brotist út í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×