Skoðun

KSÍ í dauðafæri

Magnús Orri Marínarson Schram skrifar

Vanda Sigurgeirsdóttir var kölluð til starfa hjá KSÍ þegar sambandið logaði stafnanna á milli. Hreyfingin búin að missa allan trúverðugleika, og stuðningsfólk og styrktaraðilar kröfðust aðgerða. Reynslumiklum leiðtogi með mikla þekkingu á stjórnun og áratuga alhliða reynslu úr fótboltaheiminum var skipt inná.

Vöndu hefur sannarlega tekist að skapa ró og sátt hjá sambandinu eftir stormasaman tíma. Nú nokkrum mánuðum síðar er komið að ársþingi KSÍ þar sem kjósa skal formann til tveggja ára. Þá stíga strákarnir fram - enda er þetta orðið ágætt. Konan er búin að taka til eftir „vesenið“.

Fyrstu 74 árin var formaðurinn KSÍ karl úr KR eða Val. Svo kom kona að norðan. Í fjóra mánuði. Það yrði meiriháttar skandall fyrir knattspyrnuhreyfinguna ef þar ætti að láta staðar numið. Það er nefnilega þörf á nýjum áherslum til þess að bæta menningu fótboltans til framtíðar. Ef í vafa - spyrjið kvennalið Þróttar.

Þriðjungur iðkenda innan KSÍ eru konur og þar er helsti vaxtarbroddur hreyfingarinnar. Framundan er að auka hlut kvenna í þjálfun og stjórnun félaganna. Á sama tíma upplifum við stórkostlega breytingu í jafnréttismálum og jöfn staða kynjanna verður mál málanna næstu misserin. Þar er fótboltinn ekki undanskilinn. Gamlar lausnir duga ekki á nýjan veruleika.

Vanda kom og tók til. Kona með yfirgripsmikla reynslu og þekkingu til að takast á við margþættar áskoranir sem framundan eru hjá KSÍ. Þekkir hreyfinguna sem leikmaður og þjálfari, og með bakgrunn í æskulýðs- og menntunarmálum. Er einmitt með þær áherslur sem þarf til að bæta menningu knattspyrnunnar varanlega – með áherslu á fjölbreytni og að við öll tilheyrum.

Það yrði íslenskri knattspyrnu mikil lyftistöng ef KSÍ, sem var fyrst knattspyrnusambanda í Evrópu til að kjósa konu sem formann, myndi veita henni brautargengi áfram. Það yrðu frábær skilaboð inní hreyfinguna, til foreldra og sjálfboðaliða, inní íslenskt samfélagið og ekki síður fyrir fótboltann í heiminum. Vonandi nýtir hreyfingin þetta dauðafæri.

Höfundur er knattspyrnuunnandi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×