Körfubolti

Gömul NBA-stjarna sló til annars þjálfara í háskólaboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juwan Howard er nú þjálfari Michigan Wolverines.
Juwan Howard er nú þjálfari Michigan Wolverines. Getty/Michael Hickey

Mikil læti brutust út í bandaríska háskólakörfuboltanum eftir leik í gær, leik sem vannst þó örugglega með fjórtán stiga mun. Ástæðan var að gömul stjarna úr NBA-boltanum var ekki par sáttur með leikhlé þjálfara hins liðsins undir blálok leiksins.

Juwan Howard er nú þjálfari Michigan liðsins og lið hans mætti Wisconsin í gær. Wisconsin vann öruggan fjórtán stiga sigur, 77-63.

Það sem kveikti bálið í Howard var leikhlé sem Wisconsin tók þegar aðeins fimmtán sekúndur voru eftir og liðið fimmtán stigum yfir.

Howard var mjög æstur þegar þjálfararnir komu saman til að þakka fyrir leikinn og úr urðu slagsmál. Greg Gard, þjálfari Wisconsin, og Howard héldu handtakinu sínu á milli lengi og það urðu orðaskipti þeirra á milli en svo varð allt vitlaust.

Howard setti puttann í andlitið á Gard og greip í peysuna hans en þá kom aðstoðarmaður Gard, Joe Krabbenhoft, aðvífandi. Það endaði með því að Howard sást slá til Krabbenhoft.

Þjálfararnir voru því lítil fyrirmynd og æstu upp leikmenn sinna liða sem létu líka einhverjir hnefana tala. Moussa Diabate og Terrance Williams hjá Michigan og hjá Jahcobi Neath hjá Wisconsin gætu hafa komið sér í mestu vandræðin.

Howard hélt því fram eftir leikinn að einhver hjá Wisconsin hefði ýtt honum og þess vegna brást hann svona illa við.

Big Ten deildina mun taka málið fyrir og það er von á hörðum refsingum.

Juwan Howard lék í NBA-deildinni í næstum því tuttugu ár og var aðstoðarþjálfari Miami Heat í sex ár þar á eftir. Hann varð NBA meistari með Heat liðinu 2012 og 2013 en alls skoraði Howard 13,4 stig og tók 6,1 frákast að meðaltali í 1208 leikjum sínum í NBA-deildinni.

Það má sjá þessi læti hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×