Sport

Snorri náði besta árangri Íslendings á Vetrarólympíuleikum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Snorri Einarsson lenti í 23. sæti í 30 km skíðagöngu karla með frjálsri aðferð í morgun.
Snorri Einarsson lenti í 23. sæti í 30 km skíðagöngu karla með frjálsri aðferð í morgun. Lars Baron/Getty Images

Snorri Einarsson endaði í 23. sæti í 30 km skíðagöngu karla með frjálsri aðferð á Vetrarólympíuleikunum í Pekíng í morgun, en það er besti árangur sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð á Ólympíuleikum.

Óhætt er að segja að aðstæður kepnninar hafi verið furðulegar, en eins og glöggir lesendur kannski vita átti hún upphaflega að vera 50 km. Hins vegar var tekin ákvörðun á seinustu stund um að stytta hana um 20 km og seinka henni um klukkutíma þar sem aðstæðurnar í Zhangjiakou voru erfiðar snemma dags.

Þrátt fyrir óánægju margra með þessa ákvörðun var haldið af stað í miklum kulda, og þá var einnig töluverður vindur sem gerði keppendum erfitt fyrir.

Það var að lokum Rússinn Alexander Bolshunov sem bar sigur úr býtum, en hann kom í mark á tímanum 1:11:32.7. Tæpum sex sekúndum síðar kom annar Rússi, Ivan Yakimushkin, og bronsið tók Norðmaðurinn Sime Hegstad Krüger.

Eins og áður segir kom Snorri Einarsson 23. í mark af þeim 59 keppendum sem kláruðu. Þetta er besti árangur sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð á Ólympíuleikum. Hann kom í mark 3 mínútum og 18 sekúndum á efir Bolshunov.

Þetta er því í annað sinn á þessum Vetrarólympíuleikum sem Snorri nær besta árangri Íslendings, en hann gerði það einnig fyrr í mánuðinum þegar hann lenti í 29. sæti í 30 km skiptigöngu karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×