Erlent

Breskum manni banað af hákarli í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Simon Nellist var 35 ára gamall Breti sem bjó í Ástralíu.
Simon Nellist var 35 ára gamall Breti sem bjó í Ástralíu. Facebook

Maðurinn sem dó í hákarlaárás í Sydney í Ástralíu í gær var 35 ára Breti. Hann hét Simon Nellist og bjó í Ástralíu þar sem hann starfaði við að kenna köfun. Breskir miðlar segir Nellist hafa verið að æfa sig fyrir góðgerðasund þegar hákarl réðst á hann.

Þetta var í fyrsta sinn sem hákarl banaði manni undan ströndum borgarinnar í um sextíu ár. Í frétt Sky News segir að sérfræðingar telji minnst þriggja metra langan hvítháf hafa ráðist á Nellist.

Árásin átti sér stað skammt frá landi og voru nokkrir stangveiðimenn vitni að henni. Eitt vitni sagði hákarlinn hafa ráðist á Nellist neðan frá. Annað vitni sagðist hafa heyrt öskur, litið við og séð hákarlinn skella aftur í sjónum.

„Þetta var hræðilegt,“ sagði eitt vitni til viðbótar. Hann sagðist hafa kastað ítrekað upp í kjölfarið og hætti ekki að skjálfa. Fleiri stangveiðimenn urðu vitni að árásinni.

Sjá einnig: Hákarl banaði manni fyrir framan stangveiðimenn

Yfirvöld í Sydney hafa lokað baðströndum í borginni en til stendur að opna þær að nýju á morgun. Hákarlinn hefur ekki fundist og er hans meðal annars leitað úr lofti. Þá segir í frétt Reuters að net hafi verið sett upp nærri árásarstaðnum.

Yfirvöld hafa samkvæmt frétt BBC ekki sagt hvort hákarlinn verði aflífaður ef hann finnst, eða hvort hann verði merktur og færður frá landi, eins og gert er þegar hákarlar lenda í netum við baðstrendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×