Innherji

Bankarnir vænta aukinnar verðbólgu í febrúar, Arion með dekkstu spána

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Útsöluáhrifin í janúar ganga til baka í febrúar.
Útsöluáhrifin í janúar ganga til baka í febrúar. VÍSIR/VILHELM

Spár greiningadeilda bankanna um næstu verðbólgumælingu liggja á bilinu 5,8 prósent og 6,1 prósent á ársgrundvelli. Útlit er fyrir að innfluttur verðbólguþrýstingur verði þrálátari en áður var talið og að áfram verði spenna á fasteignamarkaði.

Verðbólga á tólf mánaða grundvelli mældist 5,7 prósent í janúar sem er mesta verðbólga hér á landi í tæplega 10 ár og var langt umfram spár greinenda. Þetta var jafnframt mesta hækkun á verðlagi milli janúar og desember síðan í janúar 2009.

Hagstofa Íslands mun birta verðbólgumælingu fyrir febrúar í næstu viku og hafa greinendur hjá stóru viðskiptabönkunum þremur gefið út spár þess efnis.

Mildasta spáin kemur frá hagfræðideild Landsbankans sem spáir því að verðbólga á ársgrundvelli mælist 5,8 prósent í febrúar og hjaðni síðan niður í 5 prósent í maí.

Árstíðarbundin hækkun á ýmsum smásöluvörum vegur hvað þyngst til hækkunar í spánni. Þessir liðir lækka jafnan töluvert í janúar á meðan útsölum stendur og hækka síðan aftur í febrúar. Greinendur bankans benda þó á að óvissan um verðbólguþróunina sé meiri nú en oft áður.

„Helgast það ekki síst af þeirri miklu aukningu á verðbólgu sem verið hefur erlendis. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands, eins og Bandaríkjunum og Þýskalandi, hefur ekki verið jafn mikil í áratugi,“ segir í verðbólguspá bankans.

„Fram eftir síðasta ári voru skilaboð ýmissa seðlabanka eins og t.d. þess bandaríska að um væri að ræða tímabundna hækkun verðbólgu sem myndi ganga tiltölulega hratt til baka af sjálfu sér. Nú bendir flest til þess að verðbólgan verði þrálátari en áður var talið.“

Greining Íslandsbanka spáir því að febrúarmælingin hífi verðbólguna upp í 5,9 prósent og að hún minnki niður í 5,6 prósent í maí. Húsnæðisliðurinn vegur þyngst en jafnframt benda greinendur bankans á að verðbólga sé alþjóðlegt fyrirbæri þessa dagana og líkur séu á því að innflutt verðbólga verði umtalsverð á næstu fjórðungum.

„Hefur bjartsýni á að hún hjaðni hratt á komandi fjórðungum minnkað verulega undanfarið. Það hefur í för með sér að hætta er á að innfluttur verðþrýstingur verði langvinnari hér á landi,“ segir í spá Íslandsbanka.

Arion banki dregur upp dekkstu myndina af þróun verðbólgu í febrúar. Aðalhagfræðingur bankans spáir því að verðbólga mælist hátt í 6,1 prósent en verði síðan komin niður í 5,5 prósent í maí.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Samkvæmt nýrri verðbólguspá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent út þriðja ársfjórðung.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×