Fótbolti

Birkir sat á bekknum er liðið datt út í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Bjarnason kom ekki við sögu er Adana Demirspor datt úr leik í tyrknesku bikarkeppninni í dag.
Birkir Bjarnason kom ekki við sögu er Adana Demirspor datt úr leik í tyrknesku bikarkeppninni í dag. Vísir/Jónína Guðbjörg

Birkir Bjarnason var ónotaður varamaður er Adana Demirspor heimsótti Alanyaspor í tyrknesku bikarkeppninni í fótbolta í dag. Heimamenn tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum með sigri í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1-1 að venjulegum leiktíma loknum.

Wilson Eduardo kom heimamönnum í Alanyaspor yfir á 22. mínútu áður en Erhun Oztumer jafnaði metin fyrir Demirspor stuttu fyrir hálfleik.

Staðan var því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja. Hún var enn óbreytt að venjulegum leiktíma loknum og því þurfti að framlengja.

Efkan Bekiroglu fékk tækifæri til að koma heimamönnum yfir af vítapunktinum í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingarinnar, en klikkaði á spyrnu sinni. Staðan var því enn 1-1 að framlengingu lokinni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Þar reyndust heimamenn sterkari, en þeir skoruðu úr fjórum spyrnum gegn aðeins tveimur spyrnum gestanna í Adana Demirspor. Alanyaspor er því á leið í átta liða úrslit tyrknesku bikarkeppninnar, en Birkir Bjarnason og félagar sitja eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×