Skoðun

Brotið gegn börnum

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar

Samantekt Barnaverndarstofu um fjölda tilkynninga til Barnaverndarnefnda um brot gegn börnum á árunum 2019-2021 leiðir í ljós að tilkynningum hefur fjölgað um 16,9% á covid árunum 2020-2021.

Á árinu 2021 bárust 720 tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis gegn börnum, eða 39,8% fleiri tilkynningar um kynferðisofbeldi en á árinu 2020. Ef miðað er við 2019 er munurinn enn meiri, eða sem nemur 51,6%. Meira en helmingi fleiri. Á bakvið hvern sem um fjölgar liggja mörg mannslíf í rúst, sár sem aldrei gróa. Líf sem aldrei verður samt.

Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu hefur á tímabilinu einnig farið fjölgandi. Á árinu 2021 bárust 1.846 tilkynningar frá skólakerfinu, það er fjölgun um rúmlega 200 frá árinu 2019, og fjölgun um 26% frá heilbrigðisþjónustunni. Gera má ráð fyrir því að tilkynningar frá skólum og heilbrigðiskerfinu séu byggðar á rökstuddum grun og ber að taka þessari fjölgun grafalvarlega.

Það þarf að tryggja að til staðar séu viðeigandi viðbragðsáætlanir fyrir bæði heilbrigðisstarfsfólk og kennara sem verða þess áskynja að börn lifi ekki við ásættanlegar aðstæður. Mikilvægt er að efla þjálfun, vitund og viðbrögð þeirra svo rétt sé staðið að málum. Í mörgum tilfellum verður að grípa strax til aðgerða svo barn hljóti ekki enn meiri skaða af aðstæðum heima fyrir. Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur aukist á covid-árunum, úr 908 í 1171 á tímabilinu. Þetta er þróun í þveröfuga átt.

Ástæða er til þess að hafa áhyggjur af námsframvindu barna í framhaldinu, en tilkynningum um vanrækslu barna vegna náms hefur sérstaklega fjölgað og má leiða að því líkur að takmarkanir vegna sóttvarnaaðgerða hafi haft áhrif hér. Það þarf að spyrja spurninga um framhaldið, hvernig á að styðja við þessi börn svo að vanrækslan hafi ekki langvarandi áhrif á námsframvindu þeirra?

Ég tel það eitt brýnasta verkefnið okkar hér að láta ekki þessa þróun sem ógnar heilsu og velferð barnanna okkar óátalda án markvissra viðbragða.

Ég mun leggja fram fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra á Alþingi til að kalla fram viðbrögð við þessum staðreyndum.

Það er okkar frumskylda að standa með börnunum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×