Innlent

Árangur náist þegar fólk stendur saman og stígur fram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hótelstarfsmenn í verkfallsaðgerðum.
Hótelstarfsmenn í verkfallsaðgerðum. Vísir/Vilhelm

„Íslenska valdastéttin, oftar en ekki með stuðningi verkalýðsforystunnar, hefur sett mikið púður í að telja verkafólki trú um að barátta borgi sig ekki.“ Þetta segja Sólveig Anna Jónsdóttir og Michael Bragi Whalley í aðsendri grein á Vísi.

Bæði eru frambjóðendur til stjórnar Eflingar.

Sólveig og Michael segja að verkafólki hafi verið kennt að láta sérfræðinga sem noti orð eins og „svigrúm“ og „stöðugleiki“ sjá um að leysa málin. „Við Eflingarfélagar sönnuðum hins vegar að leiðin til árangurs er þveröfug: Hún er að taka málin í eigin hendur og virkja það vald sem við sjálf höfum sem vinnandi fólk.“

Sólveig Anna var kjörinn formaður Eflingar árið 2018 en í greininni segir að síðan þá hafi félagsfólki Eflingar tekist að vekja „verkalýðsbaráttu láglaunafólks á Íslandi af löngum svefni“.

„Verkföll á Íslandi höfðu áratugina á undan verið nær alfarið bundin við fámenna hópa millitekjufólks, svo sem heilbrigðisstéttir hjá ríkinu, flugstéttir og sjómenn.

Í verkfallsaðgerðum Eflingar á almenna og opinbera vinnumarkaðnum 2019-2020 gerðist það hins vegar í fyrsta sinn í lengri tíma að við, ófaglært verkafólk, samþykktum og tókum þátt í fjölmennum verkfallsaðgerðum.“

Sólveig og Michael segja verkfallsaðgerðirnar hafa verið erfiðar en vel skipulagðar og góður skóli. Sá árangur sem hefði náðst væri ekki aðeins tilkominn vegna nýrrar forystu heldur einnig vegna þess að stórir hópar félagsfólks hefðu verið tilbúnir til þátttöku.

„Stærsti lærdómurinn af baráttu Eflingarfélaga síðan 2018 er þessi: Árangur í kjarabaráttu næst þegar félagsfólk sjálft er fjölmennt, stendur saman og þorir að stíga fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×