Innlent

Engir ís­lenskir ráða­menn halda utan vegna Vetrar­ólympíu­leikanna

Atli Ísleifsson skrifar
Vetrarólympíuleikarnir verða settir á morgun og standa til 20. febrúar.
Vetrarólympíuleikarnir verða settir á morgun og standa til 20. febrúar. Getty

Engir íslenskir ráðamenn mun fara frá Íslandi til þess að sækja Vetrarólympíuleikana í Peking í Kína sem hefjast á morgun og standa til 20. febrúar.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Þar segir að það sé „meðal annars vegna þess að snemma [hafi legið] fyrir að slíkt ferðalag myndi fela í sér mikinn tilkostnað og umstang sökum strangra sóttvarnarkrafna í Kína.“

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, mun sækja opnunarviðburði Vetrarólympíuleikanna og Vetrarólympíumóts fatlaðra.

Nokkur ríki hafa tilkynnt að þau muni ekki senda neina opinbera sendinefnd á leikana vegna stöðu mannréttindamála í Kína. Þannig tilkynntu bandarísk stjórnvöld í desember að engin sendinefnd á vegum Bandaríkjastjórnar myndi sækja leikana. Sömu sögu er að segja af stjórnvöldum í Ástralíu, Bretlandi og Kanada.

Fimm Íslendingar keppa á Vetrarólympíuleikunum að þessu sinni – þrír í skíðagöngu og tveir í alpagreinum.

Keppendur Íslands í Peking:

  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, alpagreinar kvenna – svig, stórsvig og risasvig
  • Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
  • Kristrún Guðnadóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga
  • Snorri Einarsson, skíðaganga karla – 15km F (frjáls aðferð), 30km skiptiganga, 50km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð), liðakeppni í sprettgöngu
  • Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og liðakeppni í sprettgöngu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×