Fótbolti

Sadio Mane: Þið sjáið á andlitinu mínu hvað ég er glaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane fagnar markinu sínu í sigrinum í undanúrslitaleiknum í gær.
Sadio Mane fagnar markinu sínu í sigrinum í undanúrslitaleiknum í gær. AP/Sunday Alamba

Sadio Mane jafnaði markamet senegalska landsliðsins í gær þegar hann hjálpaði þjóð sinni að komast í úrslitaleik Afríkukeppninnar í knattspyrnu.

Senegal vann Búrkína Fasó 3-1 og mætir annað hvort Egyptalandi eða Kamerún í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Mane innsiglaði sigurinn þremur mínútum fyrir leikslok en þetta var hans 29. mark fyrir Senegal og með því jafnaði hann markamet Henri Camara. Abdou Diallo og Idrissa Gueye höfðu skorað hin mörkin.

„Þetta sýnir meðbyrinn sem er með okkur. Við vissum að það yrði ekki auðvelt að komast í tvo úrslitaleiki í Afríkukeppninni í röð. Það mikilvægasta fyrir okkur núna er að fara í úrslitaleikinn og vinna hann sama hverjum við mætum,“ sagði Sadio Mane eftir leikinn.

„Við vorum að spila á móti virkilega góðu Búrkína liði sem skapaði okkur fullt af vandamálum. Við bjuggumst við erfiðum leik og hann varð það. Við héldum ró okkar og sköpuðum fullt af færum. Mér fannst við eiga sigurinn skilið,“ sagði Mane.

„Þið sjáið á andlitinu mínu hvað ég er glaður sem er alveg fullkomlega eðlilegt. Ég er mjög stoltur og ánægður fyrir mína hönd, fyrir hönd liðsfélaganna og fyrir hönd þjóðar minnar,“ sagði Mane.

Senegal hefur aldrei unnið Afríkukeppnina en liðið tapaði 1-0 á móti Alsír í úrslitaleiknum á síðustu keppni og þurfti einnig að sætta sig við silfur árið 2002 en þá töpuðu Senegalar í vítaspyrnukeppni á móti Kamerún.

Mane hefur skorað þrjú mörk í keppninni en aðeins Kamerúnarnir Vincent Aboubakar (6 mörk) og Karl Toko Ekambi (5 mörk) hafa skorað fleiri.

Í kvöld kemur síðan í ljóst hvort liðsfélagi Mane hjá Liverpool, Mohamed Salah, komist líka í úrslitaleikinn með egypska landsliðinu sem spilar þá við heimamenn í Kamerún í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×