Innlent

Geir vill þriðja sætið hjá Við­reisn í borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Geir Finnsson.
Geir Finnsson. Aðsend

Geir Finnsson varaborgarfulltrúi hefur ákveðið að bjóða sig fram í þriðja sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Í tilkynningu frá Geir segir að í störfum sínum sem varaborgarfulltrúi undanfarið kjörtímabil hafi hann lagt sig fram við að gera sem mest gagn fyrir borgarbúa. 

„Viðreisn stendur fyrir einfaldara og skilvirkara borgarkerfi þar sem áhersla er á valfrelsi borgarbúa og vil ég leggja mig allan fram við að vinna þessum málum enn frekara brautargengi. Markmiðið er að gera Reykjavík að fyrirmyndarborg í hvívetna.

Ég er ungur og bý að töluverðri reynslu. Ég tók virkan þátt í stofnun bæði Viðreisnar og Uppreisnar, hef setið sem varaþingmaður og nú síðast sem varaborgarfulltrúi. Ég gegni varaformennsku í Landssambandi ungmennafélaga auk þess að vera menntaður framhaldsskólakennari með reynslu úr fyrirtækjarekstri, verkefnastjórnun og fjölmiðlun.

Með þennan bakgrunn hef ég mótað mína sýn á það hvernig við búum til betri borg. Ég vil leggja ríka áherslu á öflugri og einfaldari þjónustu við borgarbúa, fjölbreytni í skólamálum, sjálfbæra og spennandi framtíð fyrir ungt fólk og skipulag sem tekur mið af því að auðga mannlíf frekar en malbik.

Ég tel það bæði spennandi og ærið verkefni að vinna þessari sýn áframhaldandi framgang og vona sannarlega að ég fái tækifæri til þess. Ég hvet því Reykvíkinga til að skrá sig í Viðreisn a.m.k. þremur dögum fyrir prófkjörsdag (4. mars) og velja í prófkjöri,“ segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×