Erlent

Sýknuð af því að hafa logið til um hópnauðgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla fyrir utan dómshúsið þegar undirréttur fjallaði um málið.
Efnt var til mótmæla fyrir utan dómshúsið þegar undirréttur fjallaði um málið. epa/Katia Christodoulou

Hæstiréttur Kýpur hefur fellt niður dóm yfir konu sem var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa logið til um hópnauðgun sem hún sagði hafa átt sér stað á hóteli árið 2019.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að réttarhöldin yfir konunni, sem er 21 árs Breti, hefðu ekki verið réttlát. Konan sagðist myndu leita til Mannréttindadómstóls Evrópu ef niðurstöðu undirdómstólsins yrði ekki hnekkt.

Forsaga málsins er sú að konan leitaði til lögreglu í júlí 2019 þar sem hún greindi frá því að allt að tólf Ísraelsmenn hefðu nauðgað sér á hóteli í Ayia Napa. 

Konan var síðar fundin sek um að hafa logið til um nauðgunina á grundvelli skriflegrar yfirlýsingar en lögmenn konunnar, sem hefur aldrei verið nafngreind, sagði hana hafa skrifað undir skjalið eftir átta klukkustunda yfirheyrslur án lögmanns eða túlks.

Móðir konunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar dóms Hæstaréttar þar sem segir að jafnvel þótt niðurstaðan breyti því ekki hvernig lögregla, dómstólar og önnur yfirvöld komu fram við dóttur hennar veki hún von um breytt vinnubrögð gagnvart þolendum.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×