Fótbolti

Barcelona að takast hið ómögulega | PSG falast eftir Dembele

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gallagripur?
Gallagripur? David S. Bustamante/Getty

Útlit er fyrir að Barcelona muni takast að losna við Ousmane Dembele áður en lokað verður fyrir félagaskipti í Evrópu annað kvöld.

Það hefur legið fyrir í töluverðan tíma að þessi 24 ára gamli Frakki eigi enga framtíð á Nou Camp en hann er á góðum samningi í Katalóníu og hefur hingað til ekki haft áhuga á að yfirgefa félagið.

Nú er að rofa til því Dembele hefur náð samningum við franska stórveldið PSG og eru því allar líkur á að kappinn muni hafa félagaskipti á morgun en Börsungar eru tilbúnir að selja hann fyrir aðeins 20 milljónir evra.

Barcelona borgaði 105 milljónir evra fyrir Dembele þegar hann kom til félagsins frá Borussia Dortmund sumarið 2017. Einnig voru ákvæði um 40 milljónir evra til viðbótar en ekki er ljóst hversu mikið Barcelona hefur þurft að greiða af þeirri upphæð.

Dembele hefur aðeins leikið sex leiki í spænsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð en síðan hann gekk í raðir Börsunga hefur hann spilað 129 leiki fyrir félagið og skorað 31 mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×