Fótbolti

Árni í frönsku B-deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Árni er farinn til Frakklands.
Árni er farinn til Frakklands. Vísir/Hulda Margrét

Árni Vilhjálmsson hefur samið við franska B-deildarliðið Rodez til ársins 2024. 

Sóknarmaðurinn Árni Vilhjálmsson mun ekki leika áfram með Breiðabliki hér á landi eftir að hafa komið eins og stormsveipur inn í deildina á síðustu leiktíð. 

Eftir að hafa fengið samningi sínum í Kópavogi rift hefur Árni ákveðið að söðla um og halda til Frakklands þar sem kærsta hans og barnsmóðir - landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir - leikur með stórliði Lyon. Í dag staðfesti franska félagið Rodez AF að Árni hafi samið við þaðtil ársins 2024.

Hinn 27 ára gamli Árni hefur komið víða við á ferli sínum en hann hefur leikið með Lillestrøm í Noregi, Jönköpings Södra í Svíþjóð, Bruk-Bet Termalica Nieciecza Klub Sportowy í Póllandi, Chornomorets Odesa og Kolos Kovalivka í Úkraínu ásamt uppeldisfélagi sínu Breiðabliki og nú Rodez AF.

Rodez er tæpa 400 kílómetra frá Lyon svo það er ljóst að vegalengdin milli Árna og Söru Bjarkar er töluvert styttra en ef hann væri enn að spila hér á landi.

Knattspyrnufélagið Rodez var stofnað 1929 og situr sem stendur í 11. sæti frönsku B-deildarinnar en alls eru 20 lið í deildinni. Ísland á nú tvo fulltrúa í deildinni en sóknarmaðurinn Elías Már Ómarsson er á mála hjá Nimes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×