Útlit er fyrir að verðbólgan, sem mælist nú 5,1 prósent, hjaðni hægt og rólega á árinu og að meginvextir Seðlabankans hækki úr 2 prósentum í 3,25 prósent fyrir árslok 2022. Eftir það muni hægja á vaxtahækkunarferli bankans og að stýrivextir verði komnir í 4 prósent í ársbyrjun 2024.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka – sem ber heitið Vöxtur í vændum – en þar segir að þrálátari veirufaraldur myndi í „versta falli seinka vaxtartaktinum nokkuð“ en líklega ekki riðla honum mikið til meðallangs tíma. Síðustu fjórðungar hafi sýnt vel þanþol hagkerfisins gagnvart sveiflum í smitum og sóttvörnum.
Íslandsbanki spáir því að 1,1 til 1,2 milljónir erlendra ferðamanna sæki landið heim á árinu borið saman við um tæplega 700 þúsund í fyrra. Það væri þá svipaður fjöldi ferðamanna og árið 2015 en þó liðlega 40 prósent færri ferðamenn en þegar mest var á árinu 2019. Þá gerir bankinn ráð fyrir því að ferðamannafjöldinn vaxi í 1,5 milljónir á næsta ári og verði 1,7 milljónir árið 2024.
Greinendur bankans segja að þróun ferðamannastraumsins muni skipta miklu máli fyrir hagþróun komandi missera. Útbreidd bólusetning meðal helstu ferðaþjóða hingað til lands og vægari veikindi af völdum Omicron-afbrigðis gefi hins vegar tilefni til hóflegrar bjartsýni og ferðavilji fólks virðist vera umtalsverður þrátt fyrir veiruna.
Mikill ferðamannastraumur mun standa undur meginhlutanum af þeim 19 prósenta vexti í útflutningi sem Íslandsbanki spáir í ár. Þá eru einnig horfur á meðal annars auknum útflutningi eldisfisks, loðnu, kísilmálms og hugverkanotkunar. Innflutningur mun hins vegar á móti vaxa um 15 prósent samhliða aukinni innlendri eftirspurn.
Eftir níu ára samfelldan afgang á viðskiptajöfnuði var halli á utanríkisviðskiptum Íslands í fyrra – líklega í kringum 1,6 prósent af landsframleiðslu – en í þjóðhagsspá Íslandsbanka er því spáð að hann muni reynast skammvinnur. Stórauknar tekjur af útflutningi muni fljótt vega upp vaxandi útgjöld vegna innflutnings og þá hjálpar til að verð á ýmsum útflutningsvörum – áli og mörgum botnfiskstegundum – hefur hækkað verulega að undanförnu.
Bankinn spáir að það verði því viðskiptaafgangur upp á 1,8 prósent á þessu ári og hann muni aukast enn frekar á komandi árum. Telja greinendur Íslandsbanka að „varanleg breyting“ sé orðin varðandi viðskipti Íslands við útlönd en hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins nema nú yfir 40 prósentum af landsframleiðslu. Útlit sé fyrir að sú staða muni batna enn frekar.
Gengi krónunnar styrktist um liðlega 3 prósent á árinu 2021 og í þjóðhagsspá Íslandsbanka kemur fram að líkur séu á því að gengið muni hækka enn meira með tímanum. Þar komi til viðskiptaafgangur, vextir Seðlabankans eru á uppleið, erlend staða þjóðarbúsins sé sterk og verðbréfaeign erlendra fjárfesta lítil í sögulegu samhengi.
Þrátt fyrir að bankinn taki fram að það sé „ógerningur“ að segja fyrir um hversu hröð styrkingin verði – og hvenær hún raungerist – þá er því spá að krónan verði um 8 til 9 prósent sterkari í árslok 2022 en hún var í byrjun þessa árs. Það myndi þýða að raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag verði komið á svipaðar slóðir og á árinu 2018.
Íbúðaverð hækkaði um nær 16 prósent á síðasta ári samhliða mikilli eftirspurn og að raunvirði var hækkunin ríflega 10 prósent. Í spá Íslandsbanka segir að það teljist ekki sjálfbært til lengri tíma litið að íbúðaverð hækki hraðar en laun og annað verðlag og bent á að Seðlabankinn hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við hækkunum á markaði, bæði með hækkun vaxta og með því að herða á reglum um hámarks veðsetningarhlutfall. Telur bankinn að þær aðgerðir muni koma til með að hafa áhrif á íbúðamarkaðinn í meira mæli á komandi misserum.
Spá Íslandsbanka gerir engu að síður ráð fyrir því að forsendur séu fyrir áframhaldandi hækkun íbúðaverðs á þessu ári þótt að hækkunartakturinn fari að róast með frekari stýrivaxtahækkunum og auknu framboði íbúða þegar fram í sækir. Áætlar bankinn að íbúðaverð hækki að nafnvirði um tæp 8 prósent í ár og en aðeins 3,5 prósent á því næsta og 2,9 prósent á árinu 2024 þegar jafnvægi hafi myndast á markaði.
Hraður efnahagsbati á síðustu misserum hefur orðið til þess að atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt – úr rúmlega 11 prósent þegar mest var niður í tæplega 5 prósent – og samkvæmt nýlegri könnun telja nær 40 prósent stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins vera skort á starfsfólki. Þar er einkum um að ræða fyrirtæki í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu sem sjá fram á fjölgun starfsfólks á næstu mánuðum. Íslandsbanki spáir því að atvinnuleysi hjaðni hratt í átt að nýju jafnvægi og verði komið í 3,6 prósent eftir um tvö ár.
Bankinn gerir ráð fyrir áframhaldandi aukningu í kaupmætti launa, sem jókst um 3,7 prósent í fyrra, og hann muni vaxa um 2,5 prósent í ár og 3,3 prósent árið eftir. Það byggir meðal annars á þeim forsendum að kjarasamningar, sem losna síðar á árinu, muni „verða fremur hóflegur.“ Þá er spáð áframhaldandi vexti í einkaneyslu og að hún aukist um meira en 4 prósent í ár og 3,5 prósent á árinu 2023.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.