Erlent

Engar sýnatökur fyrir fullbólusetta ferðalanga

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Samgönguráðherra Bretlands segir að með breytingunni sé verið að skilja takmarkanir á ferðalanga eftir í fortíðinni. 
Samgönguráðherra Bretlands segir að með breytingunni sé verið að skilja takmarkanir á ferðalanga eftir í fortíðinni.  Vísir/Getty

Frá 11. febrúar munu fullbólusettir einstaklingar ekki þurfa að fara í sýnatöku við komuna til Englands. Fyrr í mánuðinum var ákveðið að hverfa frá kröfu um sýnatöku fyrir komuna til landsins. Samgönguráðherra Bretlands segir breytinguna stórt skref. 

Einstaklingar sem eru fullbólusettir munu bráðum ekki þurfa að fara í sýnatöku fyrir Covid-19 við komuna til Englands en Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, tilkynnti í dag fyrir neðri deild breska þingsins að breytingarnar kæmu til með að taka gildi þann 11. febrúar næstkomandi.

Að sögn Shapps munu breytingarnar koma til með að spara fjölskyldum um hundrað pund við ferðalög erlendis og gera það að verkum að ferðaþjónustan komist aftur á fætur. Fyrr í janúar tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að fullbólusettir þurfi ekki að taka próf fyrir komuna til Englands.

„Við ætlum að tryggja að 2022 verði árið sem að takmarkanir á ferðalög, útgöngubönn og takmarkanir á líf fólks verði skilin eftir í fortíðinni,“ sagði Schapps.

Að því er kemur fram í frétt BBC hefur einnig verið slakað á reglum fyrir óbólusetta ferðamenn en þeir munu ekki þurfa að taka próf á áttunda degi eftir komuna. Þeir munu þó áfram þurfa að fara í próf fyrir komuna til Englands og á öðrum degi eftir komuna.

Einnig stendur til að samþykkja bólusetningarvottorð frá ríkisborgurum 16 landa til viðbótar, þar á meðal Kína og Mexíkó, og verða þar með bólusetningarvottorð frá 180 ríkjum og landsvæðum tekin gild.

Aðilar innan ferðaþjónustunnar í Bretlandi fögnuðu ákvörðuninni í dag og sögðu breytinguna síðasta skrefið í takmarkalausum ferðalögum.

Atvinnugreinasamtökin LTIO segja þó varhugavert að slaka svona mikið á svo snemma. Formaður samtakanna, Tom Watson, segir að eina leiðin til að halda landinu frá útgöngubanni og öðrum hörðum aðgerðum sé með sýnatökum.


Tengdar fréttir

Bólu­settir ferða­menn ekki í sýna­töku fyrir flug

Bólusettir ferðalangar á leið til Englands þurfa ekki lengur að fara í fara í sýnatöku 48 klukkustundum fyrir komuna til landsins.  Þá þurfa ferðamenn heldur ekki að vera í sóttkví á meðan beðið er eftir niðurstöðum úr PCR prófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×