Fótbolti

Tólf smit og allir markmenn liðsins úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ali Ahamada, markvörður Kómoreyja, er einn af þeim sem er smitaður.
Ali Ahamada, markvörður Kómoreyja, er einn af þeim sem er smitaður. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Kómoreyjar eru að taka þátt í Afríkumótinu í fótbolta í fyrsta sinn í sögu landsins. Ekki nóg með það heldur gerði liðið sér lítið fyrir og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum mótsins. Nú hefur kórónuveiran hins vegar sett strik í reikninginn hjá liðinu þar sem tólf smit greindust í gær.

Kómoreyjar eiga að leika sinn stærsta knattspyrnuleik í sögu landsins gegn heimamönnum og fimmföldum Afríkumeisturum Kamerún í 16-liða úrslitum Afríkumótsins á morgun, en eins og áður segir er kórónuveiran að leika þá grátt. Meðal þerra tólf sem greindust smitaðir er þjálfari liðsins, Amir Abdou.

Þá eru sjö leikmenn einnig smitaðir, þar á meðal markverðirnir tveir sem eftir voru, þeir Moyadh Ousseini og Ali Ahamada. Aðalmarkvörður liðsins, Salim Ben Boina er frá vegna meiðsla.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að finna lausn,“ sagði framkvæmdarstjóri knattspyrnusambands Kómoreyja, El Hadad Himidi.

„Þetta er þjálfarinn og þeir markmenn sem voru heilir þannig að staðan er mjög flókin,“ bætti Himidi við.

Afríska knattspyrnusambandið CAF tilkynnti fyrir mót að þau lið sem verða fyrir barðinu á kórónuveirunni fái ekki frestun. Liðin þurfi að leika sína leiki, jafnvel þó að engir markmenn séu til taks.

Finnist engin lausn þurfa Kómoreyjar því að mæta til leiks gegn gestgjöfunum í 16-liða úrslitum með vægast sagt laskað lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×