Nýbirt niðurstaða könnunar ASÍ og BSRB meðal félagsmanna vekur spurningar, bæði um aðferðafræði og notagildi til ályktana. Svo virðist sem 150.000 manns hafi verið gefinn kostur á að svara spurningalista og 6 prósent, 9.000 manns, hafi svarað.
Helsta niðurstaða könnunarinnar er að yfir 90 prósent félagsmanna töldu hana ekki svara verða. Það ætti að vera aðstandendum hennar áhyggjuefni. Eflaust hefur mörgum fundist spurningar torræðar og svarmöguleikar duttlungakenndir. Fólk er með mismunandi huglæga kvarða.
Niðurstöður könnunarinnar byggja ekki á slembiúrtaki (tilviljanakenndu úrtaki) sem er forsenda þess að mark sé á henni takandi heldur sjálfvali einstaklinga sem tóku þátt. Slembiúrtak gefur kost á alhæfingum um heildina með aðferðum fræðilegrar tölfræði.
Það ætti að vera aðstandendum hennar áhyggjuefni. Eflaust hefur mörgum fundist spurningar torræðar og svarmöguleikar duttlungakenndir.
Í umræddri skýrslu er viðleitni til þess að draga úr hinu bjagaða úrtaki með því að vega svörin ójafnt, það er leiðrétt er fyrir því að kynjahlutfall í svarendahópi er frábrugðið hópnum sem álykta á um. Það er þó illmögulegt að leiðrétta fyrir því að fólk með ákveðnar skoðanir getur verið líklegra til að svara svona könnunum. Gögnin eru því gagnslaus og niðurstöður einnig.
Sem dæmi má nefna að svo virðist sem meðal atvinnutekjur félagsmanna stéttarfélaganna sem tóku þátt í könnuninni séu um 20 prósent lægri en laun félagsmannanna í heild.
Skýrslan inniheldur rúmlega áttatíu töflur með tveimur víddum og tölfræðiprófi. Í fræðilegi tölfræði er varað við tvívíðum töflum því yfirleitt liggja fleiri skýringarþættir að baki. Sem dæmi má nefna að tekjur hækka með aldri sem taka þarf mið af við úrvinnslu gagna áður en ályktanir eru dregnar.
Þá er birt tölfræðipróf (Pearsons próf) sem ekkert segir um gæði könnunarinnar. Hugtakið tölfræðileg marktækni ber að nota með varfærni því hún er ekki mælikvarði á mikilvægi heldu nákvæmni ef allt er gert rétt.
Þessi könnun sýnir fyrst og fremst áhugaleysi félagsmanna ASÍ og BSRB á könnuninni og jafnvel aðstandendum hennar. Það er auðvelt að sýna fram á valbjaga, þ.e. að svarendur hafa allt aðra eiginleika en þeir sem ekki svöruðu. Ályktanir um breytingu á einhverjum stærðum milli tveggja svona kannana eru algerlega fráleitar. Villandi kannanir á borð við þessa eru því miður allt of algengar.
Höfundur er prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands.