Innherji

Vextir skipti gríðarlegu máli varðandi húsnæðiskostnað félagsmanna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Flosi Eiríksson er framkvæmdastjóri SGS.
Flosi Eiríksson er framkvæmdastjóri SGS. vísir/vilhelm

Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins um land allt eru núna að vinna í kröfugerð og öðrum undirbúningi fyrir kjaraviðræðunum að sögn framkvæmdastjórans, Flosa Eiríkssyni.

„Gert er ráð fyrir að sú vinna verði langt komin í lok apríl og þá hefst sameiginlegur undirbúningur SGS þar sem samþykktar verða helstu áherslur sambandsins," segir Flosi.

SGS er landssamband 19 aðildarfélega sem hvert og eitt fer með sjálfstæðisrétt, hvort þau veita SGS umboð til samninga kemur í ljós í apríl.

Hann segir ekki liggja fyrir hver áhrif heimsfaraldursins kunni að vera á kröfur félagsmanna sinna. „En það má gera ráð fyrir að félögin taki mið af áhrifum heimsfaraldursins á okkar félagsmenn, til dæmis hvað varðar ákvæði um veikindarétt, sóttkví og fjölmargt annað," útskýrir hann.

Hann segir vexti og verðbólgu hafa afar mikil áhrif á kjör síns fólks og skipta máli við gerð kjarasamninga. „Í Lífskjarasamningunum 2019 var ein af forsendum að vextir myndu lækka. Eðlilega verður rætt í næstu kjarasamningum hvernig það hefur gengið eftir enda skipta vextir gríðarlegu máli varðandi húsnæðiskostnað félagsmanna og fleiri þætti."

Innherji hefur undanfarið birt viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað er almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×