Innherji

Heildsölur hafa ekki séð viðlíka hækkanir á einu bretti

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Flutningsverð er einn af þeim mörgu kostnaðarliðum sem setja þrýsting á verðlag. 
Flutningsverð er einn af þeim mörgu kostnaðarliðum sem setja þrýsting á verðlag.  VÍSIR/VILHELM

Stærstu heildsölur landsins hafa ekki séð á eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.

Jón Mikael Jónasson, framkvæmdastjóri Danól, sem er dótturfélag Ölgerðarinnar, segir að fyrirtækið hafi áður upplifað tímabil verðhækkana en hann man ekki eftir jafn útbreiddum hækkunum. Þær ná til margra, ólíkra vöruflokka. „Við erum að flytja inn vörur frá um 170 framleiðendum um allan heim og það heyrir til undantekninga ef við höfum ekki fengið boð um verðhækkun,“ segir Jón Mikael.

Danól, sem velti 6,2 milljörðum króna á síðasta rekstrarári, hefur þurft að sæta hækkunum frá birgjum og framleiðendum sem spanna frá 3 prósentum og upp í allt að 30 prósent. „Mín tilfinning er að það sé lítill hluti af heildinni sem er nú þegar kominn út í verðlagið,“ segir Jón Mikael og bætir við að rökin til að verjast verðhækkunum séu af skornum skammti.

„Að verjast hækkunum gengur upp og niður, en oft getum við fundið til rök sem hjálpa okkur að forðast, fresta eða lækka áður tilkynntar verðhækkanir. Þau rök eru hreinlega vandfundin núna, þar sem nánast allt sem hreyfir við kostnaðarverðum þessara framleiðanda er að hækka: hráefni, umbúðir, laun, rafmagn, flutningur, o.s.frv.,“ segir Jón Mikael.

„Mín tilfinning er að það sé lítill hluti af heildinni sem er nú þegar kominn út í verðlagið.“

Sama er upp á teningnum hjá Nathan & Olsen. Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri heildsölunnar, segist ekki hafa upplifað annað eins.

„Það komu miklar verðhækkanir undir lok síðasta árs. Við erum að upplifa eitthvað sem við höfum aldrei upplifað áður. Sem milliliður gerum við okkar besta til að spyrna við og haga innkaupum þannig að þetta fari sem minnst út í verðlagið. En sumt ræður maður ekki við,“ segir Lísa Björk.

Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri ÓJ&K, segir að miklar verðhækkanir hafi gengið í gegn um áramótin.

„Þetta síast í gegnum aðfangakeðjuna næstu mánuði og nær líklega jafnvægi eftir fyrsta ársfjórðung.“

„Allir eru að reyna að milda þessar hækkanir eins og þeir geta en þetta er ástand sem enginn í bransanum hefur séð áður,“ segir Ólafur. „Okkar tilfinning er sú að þessar hækkanir gangi til baka þegar heimsbyggðin hefur jafnað sig en maður veit bara ekki hvenær það verður. Vonandi ganga þær baka í lok þessa árs eða byrjun næsta.“

Aðspurður segist Ólafur ekki eiga von á mikið meiri hækkunum á þessu ári. Verðhækkanirnar sem gengu í gegn um og eftir áramót eigi þó eflaust eftir að koma fram að fullu í smásölu. „Þetta síast í gegnum aðfangakeðjuna næstu mánuði og nær líklega jafnvægi eftir fyrsta ársfjórðung.“

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, sagði í samtali við Innherja í gær að búast mætti við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.

„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum. Það er til dæmis töluvert vöruúrval sem við eigum eftir að hækka. Stór þáttur í þessu er hvernig faraldurinn mun þróast þegar líður á árið. Ég átta mig ekki á því hvort þrýstingurinn muni dvína á næstunni en ef við horfum fram á mitt ár kæmi mér ekki á óvart ef við myndum sjá á bilinu 10-12 prósenta hækkanir ganga yfir,“ sagði Magnús Óli.

Þá fjallaði Innherji um uppgjörsfund Haga en í máli Finns Oddsonar, forstjóra smásölufélagsins, kom fram að verðhækkanir væru að „dynja yfir geirann þessar vikurnar“ og að það blasti við að þær myndu „óhjákvæmilega“ finna sér leið út í verðlagið.

„Má líkja því við að standa í fjallshlíð og reyna að stöðva snjóflóð með berum höndum. Það er ekkert að fara takast. En við munum að sjálfsögðu moka skaflana og snúa þessu við um leið og hægt er,“ sagði Finnur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×