Innherji

Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum, segir forstjóri Innness um verðhækkanir

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Magnús Óli Ólafsson
Magnús Óli Ólafsson Vísir/Egill

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, segir að búast megi við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.

„Það eru verulegar hækkanir í pípunum og margar ástæður sem búa að baki: brestir í aðfangakeðjum, verðhækkanir á hrávörum, umbúðum, pappír, rafmagni o.s.frv. Þetta er það sem birgjar vísa til þegar þeir hækka verð til okkar. Við fundum fyrir þessum þrýstingi á síðasta ársfjórðungi og hann hefur haldið áfram á þessu ári,“ segir Magnús Óli í samtali við Innherja.

Innnes, sem er ein stærsta matvöruheildsala landsins með árlega veltu upp á tæplega 10 milljarða króna, hefur á undanförnum mánuðum átt fullt í fangi með verðhækkanir frá birgjum sem sumar hverjar skaga hátt í 20 prósent.

„Við erum að sjá hátt í 20 prósenta hækkanir á einu bretti,“ útskýrir Magnús Óli. „Einn mjög stór birgir hækkaði nýlega verðið um 18,5 prósent og við höfum verið í basli með að koma þessari hækkun frá okkur. Við höfum reynt að taka þetta í nokkrum skrefum. En þessa dagana er algengt að fá hækkanir upp á 5, 7 eða 10 prósent.“

Ef við horfum fram á mitt ár kæmi mér ekki á óvart ef við myndum sjá 10-12 prósenta hækkanir ganga yfir.

Styrking krónunar hefur vegið lítilllega á móti verðhækkunum og í einhverjum tilfellum hefur Innnes náð að fresta hækkunum eða skipta þeim yfir tímabil. „Auk þess eigum við talsverðar öryggisbirgðir á gömlum verðum sem hafa hjálpað okkur að halda aftur af hækkunum. En þær duga ekki í marga mánuði.“

Magnús Óli er afdráttarlaus í svörum þegar hann er spurður að hve miklu leyti verðhækkanir frá erlendum birgjum hafi nú þegar skilað sér í smásöluverð.

„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum. Það er til dæmis töluvert vöruúrval sem við eigum eftir að hækka. Stór þáttur í þessu er hvernig faraldurinn mun þróast þegar líður á árið. Ég átta mig ekki á því hvort þrýstingurinn muni dvína á næstunni en ef við horfum fram á mitt ár kæmi mér ekki á óvart ef við myndum sjá á bilinu 10-12 prósenta hækkanir ganga yfir.“

Ummæli Magnúsar Óla ríma við það sem kom fram í máli Finns Oddssonar, forstjóra Haga á uppgjörsfundi smásölufélagsins í síðustu viku. Finnur sagði kostnaðarverðshækkanir „dynja yfir geirann þessar vikurnar“ og að það blasti við að þær myndu „óhjákvæmilega“ finna sér leið út í verðlagið. Hann vonast hins vegar til þess að þær verðhækkanir muni ganga hratt yfir á næstu mánuðum, eða í síðasta lagi á þessu ári.

„Þetta eru hins vegar mjög skrýtnar aðstæður,“ útskýrði Finnur á fundinum, „og má líkja við því að standa í fjallshlíð og reyna að stöðva snjóflóð með berum höndum. Það er ekkert að fara takast. En við munum að sjálfsögðu moka skaflana og snúa þessu við um leið og hægt er.“

Verðbólga mælist nú 5,1 prósent og hefur ekki mælst hærri í rúm níu ár. Húsnæðisliðurinn vóg þungt í mælingunni en án hans mældist verðbólga 3,3 prósent.

Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu. Bankinn spáði því að verðbólga myndi hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs og hún færi ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.

Nýjustu kortaveltutölur gefa hins vegar vísbendingu um að vöxtur í einkaneyslu á fjórða fjórðungi síðasta árs verði vel umfram væntingar Seðlabankans, sem eykur líkur á frekari vaxtahækkunum. Ef horft er yfir fjórða ársfjórðung 2021 í heild sinni jókst kortavelta landsmanna, á föstu gengi og verðlagi, um 17,8 prósent milli ára og þarf að leita aftur til ársins 2006 til að finna álíka vöxt.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banki, benti á að Seðlabankinn gerði ráð fyrir 5 prósenta ársvexti í einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi 2021. „Ég tel líklegt að einkaneyslan á fjórðungnum muni fara langt fram úr væntingum Seðlabankans, og styðja þar með við frekari vaxtahækkanir,“ sagði Erna Björg. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ár innfluttrar verðbólgu

Eins og allir vita segir sagan okkur að verðbólga á Íslandi hefur jafnan verið hærri en í nágrannalöndum okkar. Svo ekki sé nú minnst á ástandið á sumum tímabilum síðustu aldar þegar verðbólgan var tugum prósenta hærri hér á landi en í helstu nágrannalöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×