Erlent

Smitaðist viljandi af Covid og kafnaði á nokkrum mínútum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hanna Horka er hér hægra megin á myndinni.
Hanna Horka er hér hægra megin á myndinni.

Hana Horka, fræg þjóðlagasöngkona frá Tékklandi, lést á sunnudaginn eftir að hafa vísvitandi smitast af Covid-19. Fjöldi nýsmitaðra náði nýjum hæðum í Tékklandi í dag.

Horka var óbólusett, en eiginmaður hennar og sonur voru bólusettir. Þeir smituðust um jólin en hún ákvað að vera með þeim og smitast sjálf, svo hún gæti fengið mótefnapassa og sótt tiltekna viðburði. Þetta sagði sonur hennar í viðtali við BBC.

Í Tékklandi þarf staðfesta bólusetningu eða nýlegt smit til að fá aðgang að margs konar viðburðum eins og kaffihúsum og skemmtistöðum.

Tveimur dögum áður en hún dó birti Horka færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagðist vera á batavegi. Hún sæi leikhús, sána og tónleika í sinni nánustu framtíð.

Jan Rek, sonur hennar, sagði BBC að á sunnudagsmorgun hefði hún verið við góða heilsu. Hún hafi ætlað í göngutúr en hætti við vegna bakverkja. Þá fór hún upp í rúm. Sonur hennar segir hana hafa kafnað á nokkrum mínútum.

Hún var 57 ára gömul.

Heilbrigðisstarfsmenn að störfum í Tékklandi.AP/Petr David Josek

Ræða bólusetningarskyldu

Ríkisstjórn Tékklands er þessa dagana að ræða hvort koma eigi á bólusetningarskyldu í landinu. Sú skylda myndi ná til fólks í mikilvægum störfum og eldri en 60 ára gömul, samkvæmt frétt Reuters.

Fjöldi nýsmitaðra náði nýjum hæðum í dag en 28.469 greindust smitaðir síðasta sólarhringinn. Búist er við því að faraldurinn nái hámarki í lok mánaðarins og þá muni um fimmtíu þúsund manns greinast daglega.

Innlögnum á sjúkrahús hefur þó fækkað undanförnu en á sunnudaginn voru 2.229 á sjúkrahúsi. Í byrjun desember voru þau fleiri en sjö þúsund.

Miðað við höfðatölu er Tékkland þó með þeim ríkjum sem hvað flestir hafa dáið vegna Covid-19 en í heildina hafa 36.624 dáið af rúmlega tíu milljón íbúum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×