Handbolti

EM-hlað­varp Seinni bylgjunnar: „Getum klár­lega ekki spilað svona opna vörn á móti Hollendingunum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslenska vörnin þarf að passa sig á Kay Smits (nr. 31) en hann skoraði 11 mörk gegn Ungverjalandi.
Íslenska vörnin þarf að passa sig á Kay Smits (nr. 31) en hann skoraði 11 mörk gegn Ungverjalandi. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Farið var yfir hollenska landsliðið í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar að loknum glæstum sigri á Portúgal í fyrstu umferð riðlakeppni EM í handbolta. Hvað þarf Ísland að varast í leik kvöldsins?

„Það er algjört lykilatriði hvernig Elvar Örn (Jónsson) verður í næsta leik. Í Hollandi erum við að fara keppa við miðjumann sem er ekkert minna en stórkostlegur. Luc Steins er ofboðslega fljótur og það er ekkert smá verkefni fyrir Elvar Örn að vinna hann maður á mann ítrekað í leiknum,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson um verkefni kvöldsins.

„Við getum klárlega ekki spilað svona opna vörn á móti Hollendingunum,“ bætti Róbert Gunnarsson við áður en Ásgeir Örn tók aftur orðið.

„Við getum ekki byrjað þetta eins og gegn Portúgal. Svo í seinni hálfleik fórum við aðeins neðar, þéttum okkur dálítið og ég hugsa að það sé það sem ætti að vera uppleggið gegn Hollendingunum. Við verðum aðeins aftar.“

„Svo má ekki gleyma því að Hollendingar eru með rosalega flotta hægri skyttu sem spilar með Ómari Inga (Magnússyni) í Magdeburg. Það sýnir hversu vel Magdeburg er sett með örvhenta leikmann þar sem Kay Smits skoraði 11 mörk gegn Ungverjum. Var í Holstebro í Danmörku á sama tíma og ég var þar og spilaði stórkostlega með þeim,“ sagði Róbert Gunnarsson að endingu.

Þátt EM-hlaðvarps Seinni bylgjunnar má hlusta á hér að neðan en umræðan um Holland byrjar eftir rétt tæplega 33 mínútur. Þar fara þeir Stefán Árni Pálsson, Ásgeir Örn og Róbert yfir málin.

Leikur Íslands og Hollands hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×